Féll á rafmagnshlaupahjóli og lést

Rafmagnshlaupahjól, eða rafskútur sem svo hafa einnig verið nefnd, hafa …
Rafmagnshlaupahjól, eða rafskútur sem svo hafa einnig verið nefnd, hafa ekki verið óumdeild í Noregi síðan þau komu fram á sjónarsviðið og óttast að til fyrsta banaslyssins kæmi. Nú eru banaslysin orðin tvö í Noregi á jafnmörgum mánuðum. Ljósmynd/gauteholmin.no

Annað banaslysið á rafmagnshlaupahjóli, sem vitað er til að hafi orðið í Noregi, átti sér stað aðfaranótt gærdagsins í Rykkinn í Bærum, nágrannasveitarfélagi Óslóar. Laust fyrir klukkan þrjú þá um nóttina barst lögreglu tilkynning um karlmann sem fallið hefði af slíku farartæki.

Á vettvangi reyndist vera um mann á sjötugsaldri að ræða sem var alvarlega slasaður, vafalítið eftir fall af hjólinu, að sögn Rune Hekkelstrand, aðgerðastjóra lögreglunnar í Bærum, en engin vitni voru að slysinu og ekkert sem gaf til kynna að árekstur við annan vegfaranda hefði átt sér stað.

Var maðurinn færður á Ullevål-sjúkrahúsið í Ósló þar sem hann lést af sárum sínum síðar um nóttina og rannsakar lögregla nú málið.

Tvö banaslys með skömmu millibili

Þar með hafa tvö banaslys orðið í Noregi á þessum nýstárlegu farartækjum sem ítrekað hafa orðið þrætuepli hin síðustu misseri, nú síðast fyrir að vera þrándur í götu blindra og sjónskertra Óslóarbúa þar sem hjólin liggja gjarnan sem hráviði um götur, torg og gangstéttir höfuðborgarinnar.

Toini Hämeenkorpi, 56 ára gömul blind kona, datt um rafmagnshlaupahjól …
Toini Hämeenkorpi, 56 ára gömul blind kona, datt um rafmagnshlaupahjól í Tøyen í Ósló 30. október og hlaut skrámur af. Sagði hún dagblaðinu VG að þetta hefði ekki verið fyrsta óhappið af þeim toga. Ljósmynd/Knut-Arne Røed Olsen-Grimsby

Fyrra banaslysið, og það fyrsta í landinu á rafmagnshlaupahjóli, varð í Finnfjordbotn í Troms aðfaranótt 8. september í haust þegar maður á fimmtugsaldri féll af slíku farartæki og komst aldrei til meðvitundar uns hann lést þremur sólarhringum síðar á Háskólasjúkrahúsi Norður-Noregs.

„Þetta er það sem við höfum óttast. Að til þess kæmi að banaslys yrði á rafmagnshlaupahjóli,“ sagði Christoffer Solstad Steen, upplýsingafulltrúi umferðaröryggissamtakanna Trygg Trafikk, þá í samtali við norska ríkisútvarpið NRK og bætti því við að dæmið sannaði, svo ekki yrði um villst, að alvarleg slys gætu líka orðið við notkun lítilla og léttra farartækja sem ekki næðu miklum hraða. „Því skulum við ekki gleyma,“ sagði Steen við ríkisútvarpið.

NRK

NRKII (slysið í september)

VG (blind kona dettur um rafmagnshlaupahjól)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert