Biðst afsökunar á rasískri umfjöllun

Frá mótmælum vegna dauða George Floyd.
Frá mótmælum vegna dauða George Floyd. AFP

Ritstjóri bandaríska dagblaðsins Kansas City Star hefur beðist afsökunar vegna áratugalangrar umfjöllunar um svarta Bandaríkjamenn þar sem kynþáttafordómar og mismunum hafa ráðið ríkjum.

Eftir að lögreglan drap George Floyd í maí, sem hafði í för með sér mótmælaöldu víða um Bandaríkin, ákvað þetta áhrifmikla dagblað að rannsaka umfjöllun sína í gegnum árin, að því er ritstjórinn Mike Fannin greindi frá í samtali við CNN.

„Við höfum aldrei sett okkur sjálf undir smásjána til að skilja betur hvernig Star hafði fjallað um samfélag svartra í gegnum árin,“ sagði hann.

Á sunnudaginn birti hann langan pistil þar sem hann fór yfir málið og sagði blaðið ekki hafa staðið sig í stykkinu. Áhersla hafi fyrst og fremst verið lögð á hag fyrirtækja.

Mótmælandi hrópar „Black Lives Matter
Mótmælandi hrópar „Black Lives Matter" í rigningu í Lafayette-garðinum skammt frá Hvíta húsinu. AFP

Hunsað nema þegar glæpir voru framdir

Fram kemur í grein í blaðinu, sem er mestmegnis stjórnað af hvítu fólki, að samfélag svartra hefur verið hunsað í umfjöllun þess, nema þegar svartir Bandaríkjamenn voru sakaðir um glæpsamlegt athæfi.

Eitt dæmi er á þann veg að ekkert var fjallað um svarta djasstónlistarmanninn Charlie Parker á síðum blaðsins fyrr en hann lést árið 1955. Málsgreinarnar voru einungis fjórar og þar var nafnið hans vitlaust stafsett, eða „Charley“. Aldur hans var ekki heldur réttur.

Árið 1977 greindi Star frá eyðileggingu á eignum fyrirtækja í eigu hvítra eftir að flóð gengu yfir í stað þess að fjalla um þá 25 sem fórust, þar á meðal átta svarta Bandaríkjamenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert