Brexit-samningur ekki valkostur fyrir Norðmenn

Ine Marie Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs, kveðst sannfærð um að …
Ine Marie Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs, kveðst sannfærð um að eini valkosturinn við EES-samninginn sé full aðild að Evrópusambandinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

„EES-samningurinn er forsendan fyrir þátttöku Noregs á innri markaðnum og að mati Íhaldsflokksins er eini góði valkosturinn við EES-samninginn full aðild að ESB,“ svarar Ine Marie Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs, í tölvupósti er blaðamaður spyr um fullyrðingar norskra stjórnmálamanna um að brexit-samkomulag Breta við Evrópusambandið sé betri kostur en EES-samningurinn.

Marit Arnstad, þingflokksformaður norska Miðflokksins (n. Senterpartier) hefur sagt nú sérstaka ástæðu til þess að skoða hvaða valkostir standa Norðmönnum til boða í ljósi þess að með brexit-samningurinn veiti aðgang að innri markaði Evrópusambandsins án þess að því fylgir íþyngjandi reglur og valdaframsal.

Vekja ummælin sérstaka athygli þar sem flokkur Arnstad nýtur mikils stuðnings í könnunum þar ytra og stefnir í að vera í oddastöðu við myndun meirihluta í kjölfar norsku þingkosninganna í september.

„Nú erum við að fara yfir samninginn milli ESB og Bretlands og meta mikilvægi hans fyrir Noreg. Við getum þegar fullyrt að samstarf ESB og Bretlands verður mun minna en í dag. Það verður líka mun minna en það sem við höfum í gegnum EES, Schengen og aðra samninga okkar við ESB,“ segir Eriksen Søreide.

Tækifæri og stöðugleiki

„Tækifærin sem EES-samningurinn býður upp á fyrir norskt viðskipta- og atvinnulíf eru algjört grundvallaratriði fyrir lítið land með opið hagkerfi og er fríverslunarsamningur ekki góður staðgengill. Fyrir norska vinnustaði á landsbyggðinni er EES-samningurinn sérstaklega mikilvægur,“ segir Eriksen Søreide.

Þá segir hún samninginn þjóna hagsmunum Noregs vel og segir hann meginstef í Evrópustefnu norsku ríkisstjórnarinnar. Það sé einnig mat kjósenda, segir ráðherrann og vísar meðal annars til könnunar Sentio sem gerð var í nóvember um afstöðu norskra kjósenda til ESB-aðildar og EES-samningsins. í henni sögðust 60,9% styðja EES-aðildina en 20% sögðust mótfallnir henni. „Það er mikill og vaxandi stuðningur við EES samninginn í Noregi.“

„Samningurinn veitir okkur aðgang að innri markaði ESB og tryggir borgurum og fyrirtækjum jafnan rétt og skilyrði fyrir samkeppni, öryggi og fyrirsjáanleika. EES-samningurinn tengir norskt atvinnulíf við stærsta og mikilvægasta markaðinn með 30 ríki og 450 milljónir íbúa,“ útskýrir hún.

Eriksen Søreide segir útgöngu Bretlands hafa valdið tjóni sem hefur áhrif á alla aðila. „Við erum að semja um heildstæðan og metnaðarfullan fríverslunarsamning við Bretland, en það mun engu að síður aldrei geta bætt að fullu fyrir þá staðreynd að Bretland hefur nú yfirgefið innri markaðinn sem stjórnar mestu samstarfi okkar í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert