Aðskilin réttarhöld fyrir lögregluþjónana

Derek Chauvin.
Derek Chauvin. AFP

Réttarhöld yfir Derek Chauvin, fyrrverandi lögregluþjóni í Minneapolis sem var ákærður fyrir morð fyrir að hafa kropið á hálsi George Floyd í fleiri mínútur í maí á síðasta ári með þeim afleiðingum að Floyd lést, verða aðskilin réttarhöldum yfir hinum lögregluþjónunum sem komu að dauða Floyd. Er þetta gert til þess að takmarka smithættu kórónuveirunnar í dómssal. 

Réttarhöld yfir Chauvin hefjast 3. mars næstkomandi í Minneapolis. Réttarhöld yfir hinum lögregluþjónunum þremur, Alexander Kueng, Thomas K. Lane og Tou Thao, hefjast 23. ágúst. 

Saksóknarar og lögmenn Chauvin og Thao höfðu áður farið þess á leit við dómara að réttarhöldum yrði frestað fram á sumarið. Saksóknarar óttuðust að réttarhöldin gætu leitt til hópsmits kórónuveirunnar, en búist er við mótmælum fyrir utan dómshúsið þegar réttarhöldin hefjast. 

Lögmenn Chauvin og Thao aftur á móti vildu fresta réttarhöldunum þar sem saksóknarar höfðu verið lengi að afhenda sönnunargögn að þeirra sögn. 

Frétt Washington Post. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert