Sagðir hafa neitað að hitta Pompeo

Pompeo er náinn bandamaður Trump.
Pompeo er náinn bandamaður Trump. AFP

Ástæða þess að Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, aflýsti síðustu utanlandsferð sinni í embætti á síðustu stundu í dag er sú að utanríkisráðherra Lúxemborgar og háttsettir ráðamenn innan Evrópusambandsins neituðu að hitta hann.

Þetta fullyrðir fréttastofa Reuters og vitnar í evrópska diplómata og aðra kunnuga málinu. 

Pompeo átti að halda til Brussel í Belgíu á morgun en nú hefur utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna tilkynnt að ekkert verði af ferðinni. Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að ákveðið hafi verið að aflýsa ferðinni svo að Pompeo geti aðstoðað við að tryggja friðsam­leg og snurðulaus valda­skipti í næstu viku.

Aðeins vika er síðan múgur stuðningsmanna Donalds Trump Bandaríkjaforseta réðst inn í þinghús Bandaríkjanna í fordæmislausri árás á bandarískt lýðræði, en Pompeo er náinn bandamaður forsetans.

Samkvæmt fréttastofu Reuters stóð upphaflega til að Pompeo flygi fyrst til Lúxemborgar til að hitta þar utanríkisráðherra landsins, en að þeim legg ferðalagsins hafi verið aflýst fyrir nokkru þegar erfitt reyndist að fá fundi með ráðamönnum.

Skammarlegt

Hins vegar var heimsókn Pompeo til Brussel enn á dagskrá þar til í dag, en á lokadrögum heimsóknaráætlunar Pompeo voru þó engir fundir með ráðamönnum ESB eða nokkrir opinberir viðburðir á vegum Atlantshafsbandalagsins. Heimildarmenn Reuters segja ráðamenn í Brussel skammast sín fyrir Pompeo í kjölfar árásarinnar á bandaríska þingið.

Utanríkisráðuneyti Lúxemborgar hefur staðfest að fyrirætlaðri heimsókn Pompeo hafi verið aflýst en vildi ekki gefa nánari upplýsingar. Evrópusambandið gaf ekki kost á viðbrögðum vegna aflýsingar ferðar Pompeo. 

mbl.is