Rétt en hættulegt segir forstjóri Twitter

Jack Dorsey, forstjóri Twitter.
Jack Dorsey, forstjóri Twitter. AFP

Forstjóri Twitter, Jack Dorsey, segir að það hafi verið rétt að útiloka Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, á miðlunum en um leið setji það hættulegt fordæmi. Dorsey tjáir sig um ákvörðun Twitter í færslu á Twitter.

Dorsey segist vera dapur yfir þeim óvenjulegu og óbærilegu aðstæðum þegar Trump var vikið af Twitter til frambúðar. Hann segir ástæðinu fyrir banninu vera að hluta mistök Twitter sem hafi ekki gert nóg til þess að tryggja heilbrigðar samræður á samfélagsmiðlinum.

AFP

Samskiptavefnum Twitter hefur bæði verið hrósað og hann gagnrýndur harðlega fyrir að hafa lokað á Trump. 

Bæði kanslari Þýskalands, Angela Merkel, og forseti Mexíkó, Andres Manuel López Obrador, sem hvorugt hefur verið talið með hörðustu stuðningsmönnum Trumps hafa gagnrýnt ákvörðun Twitter. 

Friðarminnismerkið fyrir utan þinghúsið í Washington að kvöldi 6. janúar …
Friðarminnismerkið fyrir utan þinghúsið í Washington að kvöldi 6. janúar 2021. AFP

Í langri færslu á Twitter fer Dorsey yfir þessa ákvörðun sem hann hvorki fagni né sé stoltur af. Ákvörðun sem tekin var í kjölfar þess að æstur múgur réðst inn í þinghúsið í Washington. 

Hann margítrekar að ákvörðunin um að fjarlægja Trump af Twitter hafi verið tekin eftir að Trump hafi ítrekað verið varaður við. Hann segir ákvörðunina tekna út frá þeim bestu upplýsingum sem þeir höfðu um ógn þá sem staðið var frammi fyrir, bæði innan sem utan Twitter.

Dorsey viðurkennir að þessi ákvörðun geti haft afleiðingar fyrir opið og frjáls net og geti sett hættulegt fordæmi. Hann gagnrýnir einnig í færslu sinni að aðeins örfáir einstaklingar, stjórnendur tæknifyrirtækja, geti tekið ákvarðanir um raddir hverra megi heyrast á netinu og hverra ekki.

Donald Trump, fráfarandi forseti Bandaríkjanna, er sakaður um að hafa …
Donald Trump, fráfarandi forseti Bandaríkjanna, er sakaður um að hafa helt olíu á eldinn með því að neita að viðurkenna úrslit kosninganna, en Trump hefur ítrekað fullyrt að brögð hafi verið í tafli. Hann hefur nú aftur á móti sagt að valdaskiptin þann 20. janúar muni fara fram með friðsamlegum hætti. AFP

Eins talar hann um ásakanir um ritskoðun. Að sögn Dorsey er það tvennt ólíkt þegar fyrirtæki tekur ákvörðun um að stilla hlutum í hóf en þegar stjórnvöld fjarlægja hluti. Eitt af því sem nefnt er varðandi ákvörðun samfélagsmiðla að fjarlægja notendur, færslur og tíst er að þetta geti brotið gegn fyrstu grein bandarísku stjórnarskráarinnar, tjáningarfrelsinu.

Stóru tæknifyrirtækin benda aftur á móti á að þau eru einkafyrirtæki og ekki í eigu eða undir stjórn ríkisins. Það sé ekki sett í lög hvernig þeir stjórni samskiptamiðlum sínum. 

Joe Biden verðandi Bandaríkjaforseti hefur sagt að hann vilji að fyrirtæki eins og Facebook og Twitter geri meira í því að fjarlægja hatursorðræðu og upplýsingaóreiðu. Jafnframt að lög sem vernda samfélagsmiðla fyrir málshöfðum fyrir hluti sem fólk birtir á þeim verði felld úr gildi.
mbl.is