Vonast til að bólusetja alla fullorðna fyrir lok júní

AFP

Forsvarsmenn lyfjafyrirtækisins Pfizer reyna nú að kyrra áhyggjuraddir vegna breytinga á afhendingu á bóluefni fyrirtækisins. Í Bretlandi standa vonir til þess að allir sem eru orðnir 18 og eldri verði bólusettir fyrir lok júní. 

Ekkert bendir til þess að kórónuveirufaraldurinn sé í rénun en yfir 94 milljónir hafa smitast og yfir tvær milljónir látist. Evrópa er meðal þeirra heimshluta sem hafa orðið verst úti í faraldrinum. Því veldur það áhyggjum að Pfizer-BioNTech hefur tilkynnt að hægja þurfi tímabundið á afhendingu bóluefnis í Evrópu á sama tíma og dreifing þess hefur verið harðlega gagnrýnd víða í álfunni.

Unnið er að því að auka framleiðslugetu Pfizer í Belgíu og segir fyrirtækið að það muni gera því mögulegt að auka framleiðsluna á bóluefninu á öðrum ársfjórðungi. Fyrirtækin, Pfizer og BioNTech, segja að dreifing eigi að vera komin í það horf sem áður var áætlað, það er til Evrópusambandsins, 25. janúar. 

Nokkur af Norður- og Eystrasaltslöndunum hafa lýst stöðunni sem óviðunandi og belgísk yfirvöld, sem fara með bólusetningar þar í landi, segja að það sé óskiljanlegt að Pfizer skyldi ekki hafa samráð vegna þessara aðgerða. 

Frakkar stefna að því að hefja fjöldabólusetningu á öllum þeim sem eru orðnir 75 ára og eldri á morgun og Rússar stefna á að hefja almennar bólusetningar þá.

Telegraph hefur heimildir fyrir því að miklar líkur séu á að markmiðið um að bólusetja alla 18 ára og eldri fyrir júnílok geti orðið að veruleika. Stefnt er að því að bólusetja 4-5 milljónir í hverri viku og því markmiði verði náð innan mánaðar.

Aftur á móti hafa Bretar sömu áhyggjur og aðrir af afhendingu á bóluefni. Því hafa ráðherrar í bresku ríkisstjórninni áhyggjur af því að eina opinbera markmið ríkisstjórnarinnar í þessum málum – að bjóða 14,9 milljónum Breta upp á bólusetningu fyrir 15. febrúar  sé í hættu vegna seinkunar á afhendingu bóluefnis frá Pfizer og AstraZeneca.

Samkvæmt Telegraph stóð til að AstraZeneca myndi afhenda tvær milljónir skammta af bóluefni í Bretlandi á viku fyrir lok janúar en hefur nú verið frestað fram í miðjan febrúar. Pfizer greindi frá því í síðustu viku að tafir yrðu á afhendingu bóluefnis í Bretlandi. Aftur á móti eru vonir bundnar við nýtt bóluefni frá Moderna og væntanlegt bóluefni frá Johnson & Johnson.

Eitt af því sem talið er geta haft áhrif á framvindu mála er óvissa um áhrif bóluefna á ný afbrigði veirunnar, svo sem B.1.1.7 sem fyrst greindist á Englandi og önnur afbrigði sem greindust fyrst í Suður-Afríku og Brasilíu. 

Þrátt fyrir bólusetningar er verið að herða sóttvarnareglur á Ítalíu og Sviss og í Bretlandi verða núgildandi sóttvarnareglur teknar til endurskoðunar eftir helgi. 

Beðið eftir bóluefni frá Pfizer í New York.
Beðið eftir bóluefni frá Pfizer í New York. AFP

Í Bandaríkjunum hafa yfir 23,7 milljónir íbúa smitast og af þeim tæplega 400 þúsund látist. Faraldurinn hefur haft gríðarlegar efnahagslegar afleiðingar í för með sér þar líkt og víðar. Joe Biden hefur boðað mikið átak í bólusetningum fyrstu 100 dagana í embætti forseta Bandaríkjanna en hann tekur við á miðvikudag. 

Hertar sóttvarnareglur hafa vakið reiði meðal fjölmargra og ýmsir orðnir þreyttir á fjarlægðarmörkum og efnahagslegum afleiðingum. Um 10 þúsund tóku þátt í mótmælum í Vín í gær þar sem krafist var afsagnar ríkisstjórnarinnar. Flestir þeirra voru án grímu og virtu ekki fjarlægðarmörk.

mbl.is