„Sjúkrahúsin eins og stríðssvæði“

Sjúklingur fluttur á Royal-sjúkrahúsið í London.
Sjúklingur fluttur á Royal-sjúkrahúsið í London. AFP

Aldrei hafa jafn margir látist af völdum Covid-19 í Bretlandi og síðasta sólarhringinn eða 1.820 manns. Helsti vísindaráðgjafi ríkisstjórnarinnar, Patrick Vallance, segir í samtali við Sky að þegar farið er inn á sjúkrahús þar í landi þá minni ástandið í sumum tilvikum á stríðssvæði. 

Nú hefur yfir 51 milljón verið bólusett í heiminum samkvæmt talningu AFP-fréttastofunnar. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur beðið fólk um að örvænta ekki. Það verði til nóg bóluefni fyrir alla. 

Nýjar rannsóknir sýna að Pfizer-BioNTech bóluefnið veitir vörn gegn afbrigði kórónuveirunnar sem virðast vera meira smitandi en þau fyrri. Um er að ræða afbrigði sem fyrst greindist í Bretlandi. 

Aftur á móti bendir önnur rannsókn til þess að annað afbrigði sem fyrst greindist í Suður-Afríku sé svo bráðsmitandi að aukin hætta sé á að smitast aftur og því ekki vitað hvort bóluefni veiti næga vörn gagnvart þessu afbrigði.

Rússnesk yfirvöld hafa sótt um markaðsleyfi fyrir Spútnik V-bóluefnið í ríkjum Evrópusambandsins en ESB hefur þegar veitt Pfizer og Moderna markaðsleyfi. Yfirvöld í Chile hafa veitt kínverska bóluefninu CoronaVac markaðsleyfi en yfir 17.500 eru látnir af völdum Covid-19 í Chile. 

Að minnsta kosti 2.058.226 manneskjur eru látnar af völdum veirunnar frá því hún greindist fyrst í kínversku borginni Wuhan undir lok árs 2019. Í Bandaríkjunum eru tæplega 402 þúsund látnir. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert