Fundu brenndar líkamsleifar 19 einstaklinga

Mynd frá Tamaulipas - úr safni.
Mynd frá Tamaulipas - úr safni. AFP

Brenndar líkamsleifar að minnsta kosti 19 einstaklinga fundust í brunnum bifreiðum í Mexíkó, skammt frá landamærum Bandaríkjanna, á laugardag.

Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu saksóknara í Tamaulipas-ríki eru átök milli skipulagðra glæpasamtaka tíð á þessum slóðum.

Svo virðist sem fólkið hafi verið skotið og síðan kveikt í líkunum. Lögregla fann bifreiðarnar á sveitaveg skammt frá bænum Camargo. Hún segir að þar sem engin skothylki hafi fundist á vettvangi megi gera ráð fyrir að fólkið hafi verið drepið annars staðar.

Réttarmeinarannsókn er í gangi en að sögn saksóknara má gera ráð fyrir að erfiðlega geti gengið að bera kennsl á líkamsleifarnar þar sem þær eru illa farnar. Eins er rannsókn hafin á því hvort um óskráða flóttamenn sé að ræða. Lögreglan hefur haft samband við sendiráð Gvatemala því talið er að einhverjir þeirra séu flóttamenn frá Gvatemala. 

Alls eru íbúar Camargo 15 þúsund talsins og er bærinn við landamæri Bandaríkjanna. Hann er einnig skammt frá mexíkóska ríkinu Nuevo Leon. Mjög oft kastast í kekki á milli Noreste-glæpahringsins sem ræður yfir hluta Nuevo Leon og glæpagengisins sem hefur starfað áratugum saman í Tamaulipas.

Í janúar 2019 fundust 24 lík í nágrannabænum Miguel Aleman. Af þeim hafði verið kveikt í 15 einstaklingum. Í ágúst 2010 voru 72 óskráðir flóttamenn drepnir í San Fernando, sem er í Tamaulipas-ríki. Yfirvöld á þeim tíma sögðu að glæpahópurinn Zetas, sem var mjög öflugur á þeim tíma, hefði staðið á bak við morðin.

Stysta leiðin til Bandaríkjanna er um Tamaulipas, sem liggur við strönd Mexíkóflóa, en hún er á sama tíma sögð sú hættulegasta vegna glæpahópa sem þar starfa. Þeir stunda að ræna, kúga og drepa flóttamenn sem eru að koma frá öðrum ríkjum Mið-Ameríku.

Í fyrra voru framin 34.523 morð í Mexíkó, aðeins færri en árið 2019 er þau voru 34.608 talsins. Yfir 300 þúsund manns hafa verið drepnir í Mexíkó í stríði skipulagðra glæpasamtaka frá árinu 2006.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert