Trump opnar skrifstofu í Flórída

Trump kvaddi Washington fyrir viku.
Trump kvaddi Washington fyrir viku. AFP

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, hefur opnað skrifstofu í Flórída sem mun hér eftir sjá um öll samskipti er viðkoma forsetanum fyrrverandi. Þá verður hlutverk starfsmanna skrifstofunnar sömuleiðis að koma verkum valdatíðar Trumps á framfæri. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

„Skrifstofan mun sjá um öll mál er viðkoma Trump forseta, hvort heldur sem það eru fyrirspurnir, yfirlýsingar eða aðrar opinberar upplýsingar. Hlutverk skrifstofunnar verður jafnframt að koma á framfæri boðskap Trump-stjórnarinnar,“ segir í tilkynningu.

Lítið hefur borið á Trump frá því hann lét af embætti fyrir um viku. Hann er nú með aðsetur á setri sínu í Mar-a-Lago á Palm Beach í Flórída. Fram undan eru réttarhöld yfir Trump í öldungadeild Bandaríkjaþings, en demókratar hafa sakað hann um að hafa hvatt til innrásar í bandaríska þinghúsið fyrr í janúar. 

Áður en Trump yfirgaf Hvíta húsið reyndi hann allt til að fá úrslitum forsetakosninganna vestanhafs hnekkt. Þar laut hann í lægra haldi fyrir Joe Biden, núverandi forseta Bandaríkjanna. 

mbl.is