Hætta við að kalla vitni gegn Trump

Jamie Raskin, fulltrúadeildarþingmaður demókrata, frá Maryland fer fyrir saksóknarateyminu.
Jamie Raskin, fulltrúadeildarþingmaður demókrata, frá Maryland fer fyrir saksóknarateyminu. AFP

Þingmenn fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, sem fara með hlutverk saksóknara í ákæruferlinu gegn Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, og lögmannateymi Trump hafa komist að samkomulagi um að vitnaleiðslur verði ekki hluti af málsmeðferðinni sem fer nú fram vegna ákæru Bandaríkjaþings á hendur Trump.

Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti óvænt nú um fjögurleytið í dag að vitnaleiðslur yrðu leyfðar eftir að saksóknarar tilkynntu að Jaime Herrera Buetler, fulltrúadeildarþingmaður repúblikana, myndi bera vitni um símtal þáverandi forseta við Kevin McCarthy, leiðtoga repúblikana í fulltrúadeild, á meðan innrás stuðningsmanna Trump í þinghúsið 6. janúar stóð yfir.

Ringulreið greip um sig í öldungadeildinni þegar samþykkt var að kalla til vitni og var hlé gert á málsmeðferðinni skömmu síðar. Á meðan hléið stóð yfir áttu sér stað samningaviðræður milli saksóknara og lögmanna Trump og samkomulag náðist.

Samkomulagið kveður á um að í stað þess að kalla Buetler til sem vitni verður yfirlýsing hennar lögð fram og verður hluti af málsgögnum. Eftir að þingið kom saman aftur las Jamie Raskin, sem fer fyrir saksóknarateyminu, upp yfirlýsingu Buetler um símtalið.

Í yfirlýsingunni lýsir Buetler hvernig samtal Trump og McCarthy fór fram en sá síðarnefndi er sagður hafa lýst því fyrir henni og hún skrifaði lýsingarnar niður í bók.

McCarthy er sagður hafa biðlað til Trump að hvetja innrásarlýðinn til að hætta innrásinni og yfirgefa þinghúsið. Trump hafi hins vegar farið með þau ósannindi að það væru liðsmenn Antifa sem stæðu að innrásinni en ekki stuðningsmenn hans.

Þegar McCarthy bar það til baka hafi Trump sagt honum að stuðningsmönnum hans væri greinilega meira annt um meintan kosningasigur Trump en McCarthy. „Jæja Kevin, þetta fólk er greinilega í meira uppnámi yfir kosningunum en þú,“ er Trump sagður hafa svarað.

mbl.is