Brak úr flugvél særði tvo í Hollandi

Hreyfill vélarinnar var af sömu tegund og hreyfill vélar United …
Hreyfill vélarinnar var af sömu tegund og hreyfill vélar United Airlines en minni útgáfa. AFP

Hollensk yfirvöld hafa hafið rannsókn á því hvað olli því að eldur kviknaði í hreyfli Boeing 747-400-fraktflugvélar skömmu eftir flugtak frá Maastricht-Aachen-flugvelli í gær. Brak úr vélinni féll til jarðar í bænum Meerssen og særði að minnsta kosti tvo. Atvikið átti sér stað sama dag og eldur kom upp í hreyfli Boeing-flugvélar í áætlunarflugi í Bandaríkjunum.

Boeing 777-flugvélar og vélar með hreyfla af gerðinni Pratt & Whitney 4000-112 hafa verið kyrrsettar víða um heim í dag, að beiðni flugvélaframleiðandans, eftir að eldur kom upp í farþegaflugi United Airlines yfir Denver í Colarado-ríki í Bandaríkjunum í gær.

Bresk yfirvöld hafa sett tímabundið bann við komu 777-véla inn í breska lofthelgi vegna atviksins og þá hefur japanska samgönguráðuneytið fyrirskipað að rannsókn fari fram á bilun í sams konar hreyflum í 777-flugvél flugfélagsins JAL á leið frá Haneda til Naha í desember síðastliðnum.

„Við höfum hafið bráðabirgðarannsókn. Það er óvarlegt á þessum tímapunkti að draga ályktanir,“ sagði Luisa Hubregste, hjá rannsóknarnefnd flugslysa í Hollandi, við hollenska fjölmiðla í dag. Talsmaður hollensku lögreglunnar staðfesti einnig að málið væri til rannsóknar þar og að yfirvöld myndu setja sig í samband við Boeing.

Fraktflutningavélin var á leiðinni frá Hollandi til New York en eldurinn kom upp skömmu eftir flugtak frá Maastricht-Aachen-flugvellinum og brak úr hreyflinum féll til jarðar í bænum Meerssen. Vélinni var svo lent á Liege-flugvelli. Hreyfill vélarinnar var af sömu tegund og hreyfill vélar United Airlines en þó minni útgáfa.

mbl.is