Ítalir stöðva útflutning bóluefna til Ástralíu

Hluti af bóluefni AstraZeneca er framleiddur á Ítalíu.
Hluti af bóluefni AstraZeneca er framleiddur á Ítalíu. AFP

Ríkisstjórn Ítalíu hefur stöðvað fyrirhugaða sendingu af bóluefni AstraZeneca til Ástralíu. Til stóð að senda þangað 250.000 skammta af efninu, sem framleiddir voru á Ítalíu.

Ítalir eru með þessu fyrsta ríkið til að nýta sér reglur Evrópusambandsins sem gera ríkjum kleift að stöðva útflutning bóluefna hafi framleiðandinn ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart Evrópusambandinu. Ákvörðunin nýtur að sögn stuðnings framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Aðeins er útlit fyrir að AstraZeneca muni afhenda Evrópusambandslöndum 40% af umsömdu magni af bóluefni á fyrstu þremur mánuðum ársins en fyrirtækið hefur borið fyrir sig framleiðsluvanda.

Í janúar sagði Giuseppe Conte, þáverandi forsætisráðherra Ítalíu, að tafirnar væru „óviðunandi“ og sakaði fyrirtækið um að brjóta gegn samkomulagi. Eftirmaður hans í starfi, Mario Draghi, tók við embætti í síðasta mánuði en hann hefur forgangsraðað bóluefnaáætlun og sagt að nýta þurfi fyrrnefndar reglur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert