Fékk vörubifreið á þakið

Kunningi Gunnes hvatti hann til að koma sér heim úr …
Kunningi Gunnes hvatti hann til að koma sér heim úr vinnu þar sem vörubifreið væri á leið inn til hans. Þakið hélt og engum varð meint af, en heimilishundurinn Diesel var í viðbyggingunni þegar bifreiðin skall á þakinu. Ljósmynd/John Eivind Gunnes

„Ég fékk skilaboð frá kunningja mínum sem hafði ekið fram hjá. Hann ráðlagði mér að koma mér heim þar sem vörubíll væri á leið inn til mín,“ sagði John Eivind Gunnes, íbúi í Soknedal í Þrændalögum í Noregi, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK í gær.

Gunnes þorði ekki annað en að þiggja ráð félagans og hraðaði sér heim úr vinnunni þar sem honum mætti sú sjón sem honum seint líður úr minni.

Ökumaður stærðarinnar vörubifreiðar hafði þá misst stjórn á færleik sínum í snjó og hálku á vegi, sem liggur fram hjá heimili Gunnes en ofan við það, runnið út af og endað með afturenda bifreiðarinnar á þaki viðbyggingar við einbýlishús Gunnes. Þakið þoldi þó þungann enda bifreiðin tóm og því öllu léttari en fulllestuð vörum.

„Tjónið hefði orðið töluvert meira hefði hann verið með þungan farm,“ sagði Svein Erik Wagnild, aðgerðastjóri lögreglunnar á svæðinu, við NRK.

Fátt um skýringar

Viðbyggingin sé þó stórskemmd að sögn Wagnild og gat gegnum þakið sem kom í ljós þegar tvær öflugar dráttarbifreiðar drógu vörubílinn upp á veginn með samstilltu átaki. Þá hefði að minnsta kosti eitt líf verið í hættu hefði þakið gefið sig undan þunganum því heimilishundurinn Diesel var einmitt staddur í viðbyggingunni þegar ósköpin dundu yfir. „Hann er nagli og lætur eins og ekkert hafi í skorist,“ hermdi húseigandinn af ástandi gæludýrsins.

Ökumaður vörubifreiðarinnar gat litlar aðrar skýringar gefið en að hált hefði verið á veginum og skyndilega hefðu hlutirnir gerst hratt. Wagnild aðgerðastjóri sagði í samtalinu í gær að lögreglan hefði ekki verið farin að íhuga hvaða viðurlögum hann gæti átt von á, fyrst væri að fá bílinn ofan af húsinu.

Þetta er ekki eina óhappið á norskum vegum síðustu daga en páskaveðrið var með ýmsu móti um landið þótt Óslóarbúar hafi átt lygna daga með um og yfir tíu stiga hita.

Á Haukeli-fjalli í Vestfold og Telemark lentu margir í vandræðum í blindbyl á páskadag og langt í frá allir búnir til vetraraksturs. „Við stöðvuðum marga sem ætluðu yfir fjallið á sumardekkjum,“ sagði Olav Stana, vaktstjóri hjá Umferðarstofu Noregs, Statens vegvesen, við NRK um helgina.

Óslóarbúar fengu fínt páskaveður en annars staðar í Noregi var …
Óslóarbúar fengu fínt páskaveður en annars staðar í Noregi var veður með ýmsu móti og þurfti að stöðva ökumenn á sumardekkjum sem ætluðu sér á fjöll á páskadag auk þess sem bjartsýnismenn á húsbíl ætluðu sér yfir Hemsedals-fjallið í Viken í öskuroki og fuku beint út af. Ljósmynd/Aðsend

Létu fjölmiðlar þau boð umferðarstofumanna út ganga að fólk skyldi forðast allan akstur þar á svæðinu sem ekki væri bráðnauðsynlegur. Í Orkland í Þrændalögum var skyggni takmarkað og mikil hálka á vegum. Lentu tveir ökumenn þar í samstuði og sá þriðji missti stjórn á bifreið sinni og endaði í skurði. Engum varð þó meint af.

Bjartsýnismenn á húsbíl ætluðu sér yfir Hemsedals-fjallið í Viken-fylki á páskadag í mjög vályndu veðri, öskuroki og hríð, og lyktaði för þeirra með því að bifreiðin fauk út af veginum og var ekki langt frá að velta á hliðina.

NRK

Adressa (greindi fyrst frá en rekur læsta síðu)

NRKII (hremmingar á páskadag)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert