Hleypti af fjölda skota

Horft yfir Kristiansand í Suður-Noregi þar sem maður á þrítugsaldri …
Horft yfir Kristiansand í Suður-Noregi þar sem maður á þrítugsaldri skaut fjölda skota innandyra í nótt eða morgun, þar af einu sem hæfði annan sem í íbúðinni var staddur. Ljósmynd/Wikipedia.org/Knut Arne Gjertsen

Maður á þrítugsaldri er í haldi lögreglunnar í Kristiansand í Noregi eftir að hafa hleypt fjölda skota af byssu af ótilgreindri gerð í íbúð við Brennåsen þar í bænum í nótt eða morgun. Hæfði eitt skotanna annan mann, sem í íbúðinni var staddur, og var hann að sögn lögreglu með meðvitund þegar hann var fluttur á sjúkrahús.

Kona hringdi í lögregluna klukkan 06:39 í morgun, að norskum tíma, og tilkynnti að maður hefði orðið fyrir skoti í íbúð, sem hún byggi í, og væri skotmaðurinn enn þar á staðnum.

Þegar lögregla kom á vettvang blöstu mörg skotgöt á gluggarúðum íbúðarinnar við, en sá sem skotið hafði var farinn af vettvangi akandi.

Heyrði af málinu í fréttum

Ole Martin Paulsen, aðgerðastjóri lögreglu umdæmisins, greindi ríkisútvarpinu NRK frá því í dag, að lögregluþjónar í Søgne, skammt vestur af Kristiansand, hefðu komið auga á bifreið skotmannsins þar sem henni hafði verið lagt við brú á E39-brautinni og hann setið undir stýri. Var honum skipað út úr bifreiðinni og hann handtekinn, grunaður um skotárásina.

Þegar NRK ræddi við eiganda íbúðarinnar í morgun kom í ljós að hann hafði fyrst heyrt af málinu í morgunfréttum og þá umsvifalaust hringt í lögreglu. Greindi hann ríkisútvarpinu frá því að íbúðin hefði verið í útleigu síðastliðna tvo mánuði.

Bern Olav Bryge, lögmaður lögreglunnar í Kristiansand, sagði í dag að reiknað væri með fyrstu yfirheyrslu síðdegis og staðfesti einnig að lögregla í Rogaland hefði farið að húsi í Moi þar í fylkinu í tengslum við sama mál, án þess þó að vilja greina nánar frá þeim tengslum.

NRK

VG

Aftenposten

Dagbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert