Vill binda enda á lengsta stríð Bandaríkjanna

Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Joe Biden Bandaríkjaforseti. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti segir að Bandaríkjamenn muni halda áfram að styðja við bakið á Afganistan eftir að allt herlið þeirra verður dregið til baka úr landinu fyrir 11. september næstkomandi.

Sá stuðningur verði ekki hernaðarlegs eðlis.

„Það er kominn tími til að binda enda á lengsta stríð Bandaríkjanna,“ kemur fram í ræðu sem Biden flytur á eftir en greint er frá bút úr ræðunni á vef BBC.

11. september næstkomandi verða 20 ár liðin frá árásunum á Tvíburaturnana í New York, sem leiddi til loftárása og síðar innrásar Bandaríkjahers í Afganistan.

Alls eru 2.500 bandarískir hermann nú staðsettir í landinu.

mbl.is