Hætta sölu Pokémon-spila eftir ofbeldi og hótanir

Atvikið varð fyrir utan verslun Target.
Atvikið varð fyrir utan verslun Target.

Bandaríski verslunarrisinn Target mun hætta sölu Pokémon-spila til að stofna ekki öryggi starfsmanna sinna og viðskiptavina í hættu. Endursöluvirði spilanna hefur aukist feikilega í faraldrinum með tilheyrandi ringulreið í verslunum. Þá hefur starfsfólk þurft að sitja undir hótunum, að því er segir í umfjöllun Guardian.

Ákvörðunin kemur í kjölfar þess að maður dró upp byssu þar sem slegist var um Pokémon-spil á bílastæði Target-verslunar í Brookfield í Wisconsin-ríki. Lögregla segir manninn, 35 ára að aldri, hafa tekið byssuna á loft þegar fjórir menn á aldrinum 23-35 ára réðust á hann um leið og hann gekk út úr versluninni. Fjallar fréttastofa ABC um atvikið.

Joe Maddalena, sem fer fyrir uppboðsfyrirtækinu Heritage Auctions í Texas, útskýrði aukið verðmæti spilanna í samtali við Reuters.

Hvers virði ætli þessi séu? Mynd úr safni.
Hvers virði ætli þessi séu? Mynd úr safni.

Charizard fyrir þrjú hundruð þúsund dali

Þegar faraldurinn reið fyrst yfir hafi margt fólk af þúsaldarkynslóðinni einfaldlega vantað eitthvað að gera. „Og við sáum að fullt af þessum strákum og stelpum byrjuðu að spila Pokémon aftur, því þau ólust upp við það,“ segir Maddalena.

Kassar með fyrstu bandarísku útgáfunni af grundvallarspilunum hafi af þessum sökum selst á um 400 þúsund bandaríkjadali síðustu mánuði. Eða sem jafngildir um 50 milljónum króna.

Spil með drekanum Charizard, í fullkomnu ástandi, seldist á þrjú hundruð þúsund dali í janúar. Sams konar spil var virði um 16 þúsund bandaríkjadala síðla árs 2019, fyrir faraldurinn.

mbl.is