Dregur úr bílaumferð í miðborg Parísar

Borgarstjóri Parísar ætlar að gera borgina vistvænni með því að …
Borgarstjóri Parísar ætlar að gera borgina vistvænni með því að draga úr bílaumferð í miðborginni. AFP

Borgarstjóri Parísar, Anne Hidalgo, hefur tilkynnt að borgin muni draga að miklu leyti úr bílaumferð í borginni. Aðgerðirnar eru hluti af áætlun borgarstjórnarinnar um að gera borgina vistvænni. Flestar gerðir bíla yrðu bannaðir úr miðborg Parísar, þar á meðal Marais hverfinu sögufræga.

„Þetta snýst ekki um að fjarlægja alla umferð,“ segir David Belliard, einn af aðstoðarborgarstjórum Parísar um átakið. „Íbúar, farartæki fyrir fólk með fötlun, leigubílstjórar, atvinnubílstjórar og verslunareigendur munu ennþá geta keyrt inn á svæðið.“ Ekki hefur verið ákveðið hvort að bannið muni ná yfir bifhjól eða ferðamannarútur en meðal kennileita á bannsvæðinu er Louvre-safnið og Notre Dame-dómkirkjan.

„Steiktir eða soðnir“

Hidalgo tilkynnti að borgin myndi hefja samráð við íbúa borgarinnar um átakið næsta miðvikudag og myndi það halda áfram fram í október. Hidalgo var endurkjörin sem borgarstjóri Parísar í fyrra og er talið að hún muni bjóða sig fram í komandi forsetakosningum í Frakklandi fyrir hönd Sósíalistaflokksins.

Aurelien Veron, hægrisinnaður andstæðingur meirihlutans í borgarstjórn, hefur gagnrýnt samráðið sem fyrirfram ákveðið. Hann telur að með því sé Hidalgo „meira eða minna að spyrja ökumenn hvort þeir vilja vera matreiddir steiktir eða soðnir.“   

mbl.is