Vísað um leið úr landi

Spænsk yfirvöld hafa vísað um helmingi þeirra sem komu með ólöglegum hætti inn í landið frá Marokkó í gær og í dag. Talið er að ríflega sex þúsund hafi farið yfir landamærin í gær og það sem af er deginum og hafa þeir aldrei verið fleiri. Búið er að vísa 2.700 þeirra þegar úr landi.

Fólkið kemur yfir landamærin á innskotssvæði Spánar, Ceuta, í Norður-Afríku. Þeir sem AFP-fréttastofan ræddi við segja að þeir hafi ekki haft önnur úrræði. Annað hvort að fara eða deyja. Þeir komi frá ferðamannastöðum og lepji dauðann úr skel. 

Ylva Johans­son, sem fer með inn­an­rík­is­mál í fram­kvæmda­stjórn Evrópusam­bands­ins, hvetur stjórnvöld í Marokkó að koma í veg fyrir flótta fólks yfir landamærin. Hún ræddi málið á Evrópuþinginu í morgun. Um fordæmalaust atvik sé að ræða og þetta veki ótta ekki síst vegna þess hversu mörg börn eru meðal þeirra sem fóru yfir landamærin í nótt og morgun. 

Mikilvægast sé að Marokkó haldi áfram að gæta landamæranna og að þeir sem ekki hafi rétt til að dvelja á Spáni verði vísað strax á brott. „Landamæri Spánar eru landamæri Evrópu.“

Hælisleitendur byrjuðu að streyma til Ceuta í gær, margir þeirra syntu eða komu fótgangandi eftir strandlengjunni. 

Þetta gerist á sama tíma og mikil spenna er í samskiptum ríkjanna tveggja eftir að Spánn veitti leiðtoga samtakanna FrentePolisario, sem berjast fyrir sjálfstæði Vestur-Sahara, sem Marokkó segir að tilheyri sér, læknisaðstoð. Brahim Ghali er með Covid-19 og fékk heimild til að leita sér læknisaðstoðar á Spáni. 

Utanríkisráðherra Spánar, Arancha Gonzalez Laya, segir að þetta hafi verið spurning um mannúð. Að bregðast við beiðni um mannúðaraðstoð frá manneskju sem var mjög veikur. 

Amal, sem er 18 ára, segist hafa drifið sig að landamærunum eftir að hann frétti af vinum sem komust yfir. Einn drukknaði þegar hann reyndi að synda yfir. 

„Ég sá á Facebook að það væri mögulegt að komast yfir landamærin svo ég tók leigubíl hingað ásamt vini mínum. Ég get ekki lengur brauðfætt fjölskylduna,“ segir  Ouarda en hún er tveggja barna einstæð móðir frá bænum Tetouan. 

„Ég er ekki hrædd. Annað hvort dey ég eða kemst yfir,“  segir hún. 

mbl.is