„Þú ert látinn“

Sjúkrahúsið í Namsos í Þrændalögum þar sem tilveru Jacob Brækken …
Sjúkrahúsið í Namsos í Þrændalögum þar sem tilveru Jacob Brækken Almlid lauk án þess að hann væri svo mikið sem viðstaddur. Ekki þurfti annað en innsláttarvillu í nýju rafrænu dánarvottorðagáttinni til að þessi hálfsjötugi bóndi hyrfi með öllu af opinberum skrám og hætti að vera til – í kerfinu. Ljósmynd/Google Maps

Eðli málsins samkvæmt upplifa fáir að vera beinlínis tilkynnt um eigið andlát, slíkum tilkynningum er jafnan beint að öðrum. Jacob Brækken Almlid, hálfsjötugur bóndi í Steinkjer í Þrændalögum í Noregi, er þó til frásagnar um slíka upplifun.

Aðdragandi málsins var nokkur, en fyrsta vísbendingin um að Almlid væri látinn barst í síðustu viku þegar hann heimsótti son sinn í sumarbústað sem einnig er í Steinkjer. Á því ferðalagi þurftu Almlid og kona hans að fara um vegtollahlið þar sem greiða þurfti vegtollinn með bankamillifærslu, eins og sums staðar er utan alfaraleiða.

Þetta hugðist Almlid gera með greiðsluforritinu Vipps sem gerði þá ekki annað en að tilkynna honum að notandinn, hann sjálfur, væri óþekktur. Næsta vísbending kom í búðarferð skömmu síðar þegar kortalesari verslunarinnar kvað greiðslukort Almlid ógilt. Hann hugðist þá bjarga sér með því að verða sér úti um skotsilfur í hraðbanka, en sá gleypti kortið og skilaði engu.

Símtalið frá bankanum

Almlid lét gott heita í bili og tók til við að slá blettinn heima hjá þeim hjónum. Þá kom símtalið frá bankanum. Í símanum var kona sem virtist nokkuð undrandi að heyra í viðskiptavini sínum til margra ára. Tók hún sér góðan tíma í símtalinu til að fullvissa sig um að viðmælandi hennar væri Jacob Brækken Almlid, 64 ára gamall íbúi í Beitstad í Steinkjer. Jú jú, sá var maðurinn. Þá lagði hún spilin á borðið:

„Þú ert látinn samkvæmt Þjóðskrá.“ Þessi tíðindi komu nokkuð flatt upp á bónda. „Ég sé nú alveg spaugilegu hliðarnar á þessu,“ segir hann í samtali við norska ríkisútvarpið NRK, „en afleiðingarnar eru heilmiklar.“

Andlát Almlid hófst með mistökum á sjúkrahúsinu í Namsos. Mánudaginn 10. maí var læknir þar að útbúa dánarvottorð nýlátins sjúklings. Varð honum sú handvömm að gera innsláttarvillu í kennitölu hins látna og slá þar með inn kennitölu Almlid bónda, sem var og er sprelllifandi. Ekki þurfti meira en þetta, eftir að norsk dánarvottorð urðu rafræn í fyrra, til að hringrás hinnar rafrænu tilveru Almlid stöðvaðist samstundis.

Bréf um makalífeyri

Nafn hans hvarf af öllum opinberum skrám, hann var jú látinn. Sem viðskiptavinur bankans síns þurrkaðist hann út og eins hjá Norsk Tipping sem heldur utan um lottó og fjölda annarra talnaleikja í Noregi. Jacob Brækken Almlid var ekki til lengur – í kerfinu.

Fjórum dögum eftir að læknirinn gaf dánarvottorðið út fékk eiginkona Almlid bréf frá norsku vinnumála- og tryggingastofnuninni NAV þar sem henni var tilkynnt að stofnunin tæki að greiða henni makalífeyri.

Nú þarf Almlid að hafa með sér skriflegt og stimplað vottorð norsku þjóðskrárinnar hvar sem hann þarf að reka erindi, til að sýna fram á að hann sé enn hérna megin grafar. Þau erindi eru ófá þar sem hann þarf að sækja um ökuskírteini, vegabréf, fæðingarvottorð og öll opinber skjöl upp á nýtt.

Gæðaúttektar þörf

„Ég held að allir átti sig á hve erfitt þetta er fyrir Almlid,“ segir Tor Åm, forstjóri Helse-Nord-Trøndelag, sem rekur sjúkrahúsið í Namsos. „Þarna er hvort tveggja tilfinningalegt tjón og svo það umstang sem þessu fylgir. Við biðjumst innilega velvirðingar.“

Kveður forstjórinn nú tímabært að gera gæðaúttekt á nýju rafrænu dánarvottorðagáttinni sem greinilega getur opnað dyr annars heims fyrir fleirum en látnum. Er sjúkrahúsið að hans sögn þegar komið í viðræður við norska heilbrigðisráðuneytið um þá framkvæmd.

Almlid, sem nú er hægt og rólega að endurfæðast í norska kerfinu, tekur öllu saman hins vegar með jafnaðargeði. „Maður vonar bara að einhverjir dragi lærdóm af þessu. Hvorki ráðuneytið né bankinn hafa nokkurn tímann lent í nokkru á borð við þetta.“

NRK

Trønder-Avisa (læst áskriftarsíða)

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert