Vildi valda fyrrverandi konu sinni þjáningum

Lík Oliviu fannst á hafsbotni.
Lík Oliviu fannst á hafsbotni. AFP

Tomás Gimeno, 37 ára, myrti dætur sínar Önnu og Oliviu sem voru eins og sex ára gamlar á heimili sínu 27. apríl. 

Gimeno vafði lík dætra sinna síðan í handklæði, setti þau í ruslapoka og síðan í íþróttatöskur áður en hann setti þau í skottið á hvítum Audi A3 í hans eigu, samkvæmt niðurstöðu fyrirskipaðrar rannsóknar á morðunum. 

Lík Oliviu fannst á hafsbotni úti fyrir Tenerife í síðustu viku. Lík Önnu hefur enn ekki fundist.

Samkvæmt réttargögnum um rannsókn málsins, sem gerð voru opinber um helgina, keyrði Gimeno síðan bifreið sína heim til foreldra sinna í Santa Cruz de Tenerife. Þar, án þess að nokkur sæi til hans, skildi hann eftir hundinn sinn, tvö kreditkort og pin-númer þeirra og tvo lykla að nýrri bifreið sem hann hafði nýlega keypt, svartan Alfa Romeo sem hann hafði sett hlífðarlak yfir. 

Gimeno ók síðan frá húsi foreldra sinna að bryggjunni á Tenerife og sigldi af stað á skútu í hans eigi. Hann stoppaði síðan þar sem hann vissi að sjórinn væri djúpur og um klukkan 10:30 kastaði hann íþróttatöskunum með líkum dætra sinna á sjávarbotninn. Hann hafði sett þunga hluti ú töskurnar svo þær myndu ekki fljóta og jafnframt fest þær við akkeri skútunnar. 

Taldi að líkin myndu aldrei finnast 

Strax í kjölfarið hringdi Gimeno í fyrrverandi konu sína og barnsmóður, Beatriz Zimmermann, og tilkynnti henni um hvarf Oliviu og Önnu. 

Fram kemur í réttargögnunum að Gimeno hafi viljað „valda fyrrverandi maka sínum eins miklum þjáningum og hugsast getur.“ Í því skyni „reyndi hann að skapa óskýrleika um staðsetningu dætra hans með því að fela lík þeirra á stað [...] þar sem hann hélt að þau myndu ekki finnast, allt þetta gerði hann eftir að hafa tilkynnt fyrrverandi eiginkonu sinni, sem og ættingjum hans, að hann hugðist fara með Oliviu og Önnu og að þau myndu aldrei sjá þær aftur.“

Gimeno og Zimmermann höfðu verið par frá unglingsaldri. Þau skildu á síðasta ári, í miðjum heimsfaraldri. Samkvæmt réttargögnum hefur Gimeno síðan beint móðgandi ummælum að Zimmermann og gagnrýnt hana fyrir að reyna að endurbyggja líf sitt; Zimmermann hafði tekið saman með öðrum manni, sextugum Belga. Hún hafði jafnframt flutt á æskuheimili sitt í Radazul sem er skammt frá Santa Cruz de Tenerife. 

Átti í ástarsambandi með skólastjóra dóttur sinnar

Daginn sem Gimeno myrti dætur sínar hafði hann sagt við Zimmermann að hann vildi eyða með þeim síðdeginu. Hann sótti Önnu klukkan 17 og fór síðan og náði í Oliviu í þýskan skóla þar sem hún var nemandi. Gimeno breiddi síðan yfir nýja Alfa Romeo bílinn, en rannsakendur telja að það bendi til þess að Gimeno hafi skipulagt atburðarrásina fyrirfram og ekki framið morðin af hvatvísi. Þegar hann sótti Oliviu í skólann rétti hann skólastjóranum, sem hann átti í ástarsambandi við, pennaveski og sagði henni að opna það ekki fyrr en klukkan 23 og hringa þá í sig. Hann yfirgaf skólann síðan með báðum dætrum sínum. Skólastjórinn hunsaði fyrirmæli Gimeno og opnaði pennaveskið strax. Í því voru 6.200 evrur í reiðufé og kveðjubréf. 

Frá skólanum fór Gimeno heim til foreldra sinna sem gættu Önnu á meðan Olivia fór á tennisæfingu. Á meðan fór hann að höfninni til að tryggja að skúta hans, Esquilón, væri í góðu standi. Hann náði síðan í Oliviu af tennisæfingu og fór aftur heim til foreldra sinna til að ná í Önnu áður en hann fór með systurnar heim til sín um klukkan 19:30. Skömmu áður en stúlkurnar voru myrtar sendi Gimeno Zimmermann talskilaboð klukkan 7:50. Í talskilaboðunum segir Olivia móður sinni að faðir hennar vilji að hún komi heim til hans klukkan 21 og sæki málverk. Þegar Zimmermann kom að heimili hans klukkan 21 var feðginin hvergi að finna. 

Kvaddi fjölskyldu sína og vini 

Klukkan 22:40 þetta örlagaríka kvöld var Gimeno enn á skútunni og hafði þá kastað líkum dætra sinna í hafið og hringt í Zimmermann. Á þessum tímapunkti kláraðist rafhlaðan í farsíma hans svo hann sigldi aftur til hafnar til þess að ná í hleðslutæki. Klukkan 23:15 hafði strandgæsla (Civil Guard) afskipti af Gimeno og fyrirskipaði honum að leggja skútuna við höfn þar sem hann væri að brjóta útgöngubann vegna kórónuveirunnar. Gimeno sagði strandgæslunni að hann ætlaði að leggja bátnum og fara síðan heim í háttinn, en skömmu síðar sagði hann þeim að honum hefði snúist hugur og hann hugðist eyða nóttunni á skútunni. 

Gimeno bað öryggisvörð hafnarinnar um hleðslutæki en honum varð ekki að ósk sinni. Hann keyrði þá af stað á Audi A3 bifreið sinni og keypti hleðslutæki á nærliggjandi bensínstöð. Hann keypti einnig pakka af sígarettum og vatnsflösku. Hann hlóð síðan síma sinn á skrifstofu öryggisvarðarins og spurði hann hvort hann vissi hvert strandgæslan hefði farið. 27 mínútur eftir miðnætti sigldi hann síðan aftur af stað. Engin hefur séð hann síðan. 

Klukkan 1:30 aðfararnótt 28. apríl hringdi Gimeno í Zimmermann og ræddi við hana um samband þeirra. Hann fullyrti að hann væri á leiðinni í burtu og að hún myndi aldrei sjá dætur sínar aftur. Klukkan 2:11 hringdi hann í ástkonu sína, skólastjórann, og kvaddi hana. Hann hafði síðan samband við föður sinn og baðst afsökunar. Hann hafði einnig samband við vini sína og gaf þeim mótorhjól, bát og fleira í hans eigu. 

Klukkan 17:35 28. apríl, sólahring eftir að hann náði í dætur sínar, fannst skúta Gimeno rekandi á hafi úti. Bílstóll Önnu fannst skammt frá, fljótandi í sjónum. Eftir 44 daga óvissu fannst lík Oliviu síðan á fimmtudag, í ruslapoka á þúsund metra dýpi. Nærri Oliviu fannst annar poki en sá var tómur. 

Leit að líki Önnu stendur enn yfir og líklegt er að lík Gimeno sé einnig að finna á hafsbotninum úti fyrir Tenerife. Dómari í málinu hefur nú ákveð að það verði tekið fyrir í sérstökum dómstóli vegna kynbundins ofbeldis. 

Á föstudag komu um þúsund konur saman og mótmæltu ofbeldi gegn konum í Santa Cruz de Tenerife. 

Frétt El País. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert