Leita að eins árs stúlku í sjónum við Tenerife

Leit stendur yfir að Önnu undan ströndum Tenerife. Myndin er …
Leit stendur yfir að Önnu undan ströndum Tenerife. Myndin er úr safni. AFP

Leitin að líki hinnar eins árs Önnu hélt áfram á Tenerife á Spáni í morgun. Rannsakendur telja að hún, rétt eins og systir hennar, hafi verið myrt af föður sínum.

Málið hefur vakið mikinn óhug á Spáni. Hópur fólks safnaðist saman í ráðhúsum víðsvegar um landið í dag til að mótmæla heimilisofbeldi. Samskonar mótmæli fóru einnig fram um helgina.

Tilkynnt var um hvarf stúlknanna tveggja, sem voru eins og sex ára, hinn 27. apríl eftir faðir þeirra, Tomas Gimeno, nam þær á brott, ári eftir að hann skildi við móður þeirra. 

Lík Olivíu, sem var sex ára, fannst á sjávarbotni við Tenerife, vafið inn í poka. Akkeri hafði verið notað til að þyngja hann.

Vitni sáu föðurinn flytja poka í bát

Rannsakendur telja líklegast að Gimeno hafi myrt báðar dætur sínar heima hjá sér og varpað líkunum síðan í sjóinn í von um að þær myndu aldrei finnast. Daginn sem stúlkurnar hurfu sást til Gimeno flytja þó nokkra poka í bátinn sinn, að sögn vitna.

Niðurstaða krufningar, sem var framkvæmd á föstudaginn, var á þann veg að Olivia hefði dáið „ofbeldisfullum dauðdaga“.

Frá árinu 2013 hafa 39 börn verið myrt af feðrum sínum,  eða núverandi eða fyrrverandi sambýlismönnum mæðra barnanna. Bara á þessu ári hafa 18 konur verið myrtar í málum sem tengjast heimilisofbeldi.

mbl.is