Kóralrifið mikla verði sett á hættulista

Kóralrifið mikla.
Kóralrifið mikla. AFP

Kóralrifið mikla ætti að vera sett á lista yfir heimsminjastaði í hættu vegna skaða af völdum loftslagsáhrifa að mati UNESCO. 

UNESCO leggur til að kóralrifið verði sett á listann á fundi stofnunarinnar í næsta mánuði. Stofnunin hefur hvatt áströlsk yfirvöld til þess að grípa til skjótra aðgerða til þess að stemma stigu við hlýnun jarðar. Áströlsk yfirvöld segjast vera „alfarið á móti“ tillögu UNESCO. 

Kóralrifið, sem nær yfir um 2.300 kílómetra svæði úti fyrir norðausturströnd Ástralíu, var sett á heimsminjaskrá UNESCO árið 1981 vegna vísindalegs og eðlislægs mikilvægis þess. UNESCO vakti fyrst athygli á alvarlegri heilsu rifsins árið 2017 og áströlsk yfirvöld settu þá um 2,2 milljarða Bandaríkjadala í að bæta heilsu þess. Þrátt fyrir það hefur sífellt stærri hluti rifsins haldið áfram að drepast á síðustu fimm árum. Vísindamenn telja að það sé vegna hækkandi hitastigs sjávar. 

Þrátt fyrir það hafa áströlsk yfirvöld reynst treg til þess að setja aukna áherslu á loftslagsmál. Ástralía er eitt fárra OECD-ríkja sem enn hafa ekki samþykkt markmið um kolefnishlutleysi árið 2050. Loftslagsmarkmið Ástralíu, sem er stór útflutningsaðili kola og jarðgasa, hafa ekki verið uppfærð síðan 2015. Markmið landsins um að draga úr losun um 26-28% frá árinu 2005 fyrir árið 2030 er enn í gildi. 

Frétt BBC. 

mbl.is