Gleymdu fórnarlömb hryðjuverkanna

Tugir þúsunda manna sem unnu hreinsunarstörf í New York eftir árásina á tvíburaturnana veiktust alvarlega eftir að hafa innbyrt eitrað ryk á svæðinu. 

Lucelly Gil er ein af gleymdu fórnarlömbum árásanna þann 11. september árið 2001. Gil er innflytjandi og vann við hreinsunarstörf í rústunum í New York í marga mánuði eftir árásirnar og fékk krabbamein eftir að hafa innbyrt eitrað ryk.

Gil, sem er kólumbísk, vann við hreinsun á braki á svæðinu í tólf tíma á dag í sex mánuði frá 15. september. Hún var ein tugþúsunda manna sem unnu þau störf, en margir þeirra voru ólöglegir innflytjendur. 

Þau fjarlægðu 1,8 milljón tonn af rústum af svæðinu og fengu fyrir um níu dollara á klukkustund, sem var rétt yfir lágmarkslaunum á þeim tíma. 

Fólkið vissi ekki að það ætti í aukinni hættu á krabbameini og öndunarfærasjúkdómum ásamt andlegum veikindum svo sem kvíða og áfallastreitu.

Lucelly Gil er í blárri blússu á myndinni.
Lucelly Gil er í blárri blússu á myndinni. AFP

Vill ekki muna eftir atburðunum á ári hverju

Tuttugu árum síðar er Gil 65 ára og hefur enn ekki fengið landvistarleyfi í Bandaríkjunum. Hún sigraðist á brjóstakrabbameininu, sem var algeng afleiðing á meðal kvenna sem unnu á svæðinu, en hún hefur misst hreyfigetu í annarri hendinni og glímir við þunglyndi.

„Ég vil helst ekki muna eftir þessu þegar 11. september rennur í garð á hverju ári,“ segir Gil í samtali við AFP-fréttaveituna og bætir við að hún muni eftir að hafa fundið líkamsleifar við hreinsunarstörfin.

Margir þeirra sem unnu við hreinsunarstörfin eru öryrkjar í dag vegna veikinda. Fleiri en tvö þúsund manns hafa látist af völdum veikinda sem tengjast árásunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert