Einn af þeim ljúfustu í pólitík

Breski þingmaðurinn David Amess var stunginn á kjördæmafundi í dag.
Breski þingmaðurinn David Amess var stunginn á kjördæmafundi í dag. AFP

Verkefnastjórn gegn hryðjuverkum hjá lögreglunni mun leiða rannsóknina á morði David Amess þingmanns í Bretlandi en hann lést í dag eftir stungu árás á kjördæmafundi í kirkju í Leigh-on-Sea.

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands segist vera í áfalli eftir árásina og Amess hafi verið einn af þeim ljúfustu í pólitík. Þetta kemur fram á vef BBC.

Priti Patel innanríkisráðherra hefur beðið allar lögreglusveitir að fara yfir verkferla sína þegar það kemur að öryggisgæslu þingmanna.

Árás á lýðræðið

Patel hefur fordæmt árásina og segir hana vera árás á lýðræðið og bætir við að eðlilegt sé að spurningar hafi vaknað varðandi öryggismál þingmanna.

Amess hefur verið þingmaður síðan 1983. Hann var giftur og skilur eftir sig fimm börn. Hann er annar þingmaðurinn á síðustu fimm árum sem hefur verið myrtur í Bretlandi.

Samkvæmt heimildum BBC er árásarmaðurinn breskur ríkisborgari en af sómalískum uppruna. Hann hefur verið handtekinn.

mbl.is