Bandarískur blaðamaður dæmdur í 11 ára fangelsi

Valdarán var framið í Mjanmar í febrúar á þessu ári.
Valdarán var framið í Mjanmar í febrúar á þessu ári. AFP

Herdómstóll í Mjanmar hefur dæmt bandaríska blaðamanninn, Danny Fenster, í ellefu ára fangelsi fyrir brot gegn innflytjendalöggjöf og fyrir að hvetja til óeirða, sem beinast áttu gegn herstjórn landsins. 

BBC greinir frá.

Þar að auki hefur hann verið ákærður fyrir tvö önnur brot, meðal annars hryðjuverk, sem gæti gert það að verkum að Fenster verði dæmdur í lífstíðarfangelsi. Réttarhöld vegna síðari ákæruliðanna hefjast 16. nóvember næstkomandi.

Fenster var ritstjóri vefmiðilsins Frontier Myanmar og er aðeins einn fjölmargra blaðamanna sem handteknir voru eftir valdarán mjanmarska hersins í febrúar á þessu ári. 

Samkvæmt Frontier vann Fenster áður hjá Myanmar Now, sem varð síðan mjög gangrýnið í garð hersins eftir valdaránið. 

„Ákærurnar byggðu allar á ásökunum um að hann ynni fyrir hinn bannaða fjölmiðil Myanmar Now. Danny hafði þegar sagt upp hjá Myanmar Now í júlí árið 2020 og hóf störf hjá Frontier mánuði seinna, þannig þegar hann var handtekinn í maí árið 2021 hafði hann verið að vinna hjá Frontier í meira en níu mánuði,“ segir vinnustaður hans Myanmar Frontier, honum til varnar. 

„Það er algjörlega enginn grundvöllur fyrir þessu dómi á hendur Danny," segir enn fremur.

mbl.is