Íbúar New York á varðbergi gagnvart Ómíkron

Sá sem greindist í Minnesota var nýkominn af teiknimyndaráðstefnu í …
Sá sem greindist í Minnesota var nýkominn af teiknimyndaráðstefnu í New York. AFP

Tvö tilfelli Ómíkron-afbrigðisins hafa greinst í Bandaríkjunum. Hið fyrra greindist í Kaliforníu og hið síðara í Minnesota. Í báðum tilfellum er um að ræða smit hjá fullbólusettum einstaklingi. Báðir fundu þeir fyrir vægum einkennum en hafa nú náð bata.

Sá sem greindist í Minnesota var nýbúinn að fá örvunarskammt. Hann hafði verið á teiknimyndaráðstefnu í New York-borg, 19. til 21. nóvember, og byrjaði að finna fyrir einkennum degi seinna. 

Bill de Blasio, borgarstjóri New York, segir þetta þýða að íbúar borgarinnar skuli ganga út frá því að Ómíkron-afbrigðið sé komið á kreik í samfélaginu, og verði á varðbergi. 

Yfirvöld vinna að því að ná sambandi við alla þá sem staddir voru á áðurnefndri teiknimyndaráðstefnu, og hvetja þá einstaklinga til að fara í sýnatöku við fyrsta tækifæri. 

Veiran komin inn fyrir

Bandaríkin tóku fyrr í mánuðinum ákvörðun um að loka landamærunum fyrir tilteknum ríkjum í suðurhluta Afríku.

Það virðist ekki hafa skipt sköpum enda ljóst að veiran hefur verið að ganga innan Bandaríkjanna, þar sem hinn smitaði hafði ekki farið út fyrir landsteinana í dágóðan tíma. 

Sá sem smitaðist fyrstur var þó nýkominn frá Suður Afríku.

mbl.is