Var breskur og vildi Siddiqui lausa

Siddiqui, hryðjuverkamaðurinn sem maðurinn krafðist að yrði látinn laus, var …
Siddiqui, hryðjuverkamaðurinn sem maðurinn krafðist að yrði látinn laus, var dæmd í 86 ára fangelsi árið 2010. AFP

Gíslatökumaðurinn sem tók fjóra gísla í bænahúsi gyðinga í Colleyville í Texas var að öllum líkindum breskur. Þessu greina breskir miðlar frá, þar á meðal BBC.

Maðurinn tók fjóra gísla og er sagður hafa krafist lausnar dæmds hryðjuverkamanns, Aafia Siddiqui frá Pakistan, sem nú situr í fangelsi í Texas. Á meðal gíslanna var rabbíni bænahússins.

Setið var um manninn í yfir tíu klukkustundir og var kallað til sáttasemjara á vegum alríkislögreglunnar til að eiga við manninn, án árangurs.

Samkvæmt streymi frá bænastundinni heyrðist maðurinn meðal annars segja: „það er eitthvað verulega mikið að Bandaríkjunum“ og „náið í systur mína símleiðis“ og „ég mun deyja“. Streymið hefur síðan þá verið fjarlægt af vef bænahússins.

Var í haldi í Afganistan

Siddiqui, hryðjuverkamaðurinn sem maðurinn krafðist að yrði látinn laus, var dæmd í 86 ára fangelsi árið 2010 fyrir að hafa reynt að verða bandarískum hermönnum að bana meðan hún var í haldi þeirra í Afganistan.

Hún hefur síðan þá orðið nokkurs konar píslarvottur fyrir marga hryðjuverkamenn sem aðhyllast Ríki íslams.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert