Gíslatöku lokið í Texas

Michael Miller á blaðamannafundi.
Michael Miller á blaðamannafundi. AFP

Allar fjórar manneskjurnar sem voru teknar í gíslingu í bænahúsi gyðinga í Texas eru lausar úr haldi. Sá sem er grunaður um verknaðinn er látinn.

Umsátrið stóð yfir í tíu klukkustundir í smábænum Colleyville í Texas. Gíslatökumaðurinn er sagður hafa krafist lausnar dæmds hryðjuverkamanns.

Stofnanir gyðinga í Bandaríkjunum ásamt ríkisstjórn Ísraels fordæmdu verknaðinn.

Að sögn lögreglustjóra Colleyville, Michaels Millers, ruddist alríkislögreglan inn í bænahúsið í nótt og bjargaði þeim þremur gíslum sem enn voru þar inni og voru allir þeirra fullorðnir. Nokkrum klukkustundum áður hafði fyrsta gíslinum verið sleppt úr haldi, ómeiddum.

„Hinn grunaði er látinn,“ sagði Miller við blaðamenn.

Lögreglubíll á ferð skammt frá bænahúsinu.
Lögreglubíll á ferð skammt frá bænahúsinu. AFP
mbl.is