Mun senda „lítinn hóp hermanna“ til Austur-Evrópu

Biden tók sérstaklega fram að hópurinn væri ekki stór.
Biden tók sérstaklega fram að hópurinn væri ekki stór. AFP

Joe Biden bandaríkjaforseti hyggst bráðlega senda lítinn hóp bandarískra hermanna til austur Evrópu til þess að styrkja Atlantshafsbandalagið (NATO) í návígi við Úkraínu þar sem spennan milli Rússlands og NATO magnast með degi hverjum. 

Biden tók sérstaklega fram að hópurinn væri ekki stór, í samtali við blaðamenn. Bandaríkin eru nú þegar með þúsundir hermanna dreifða um vesturhluta Evrópu. 

Þó Úkraína sé ekki hluti af Atlantshafsbandalaginu óttast NATO að innrás þangað komi til með að vinda upp á sig og teygja sig inn í bandalagsríkin í grenndinni. 

Rússnesk yfirvöld hafa ítrekað neitað því að til standi að ráðast inn í Úkraínu. Engu að síður eru fleiri en hundrað þúsund hermenn þeirra nú á landamærunum.

mbl.is