Einræðisherra og aldrei meira einangraður

Joe Biden flutti árlega stefnuræðu forseta í nótt. Í bakgrunni …
Joe Biden flutti árlega stefnuræðu forseta í nótt. Í bakgrunni varaforsetinn Kamala Harris og Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar þingsins. AFP

Innrás rússneska hersins í Úkraínu, að fyrirskipun forsetans Vladimírs Pútín, var ofarlega á baugi þegar Joe Biden Bandaríkjaforseti flutti árlega stefnuræðu forseta í nótt.

„Fyrir sex dögum sóttist Pútín eftir því að skekja sjálfar stoðir frjálsa heimsins, og hélt að hann gæti beygt þær undir sínar ógnvekjandi aðferðir. En hann misreiknaði sig illilega,“ sagði Biden í upphafi ávarpsins.

Sagði hann Pútín hafa talið að hann gæti rúllað inn í Úkraínu og að heimurinn myndi rúlla á hliðina.

„Þess í stað mætti honum sterkur veggur. Úkraínska þjóðin,“ sagði forsetinn og uppskar duglegt lófatak viðstaddra.

Á vörum sendiherra Úkraínu í Bandaríkjunum, sem var sérstakur gestur forsetafrúarinnar á þingpöllunum, mátti sjá orðin „Thank you“ þar sem hún horfði niður til forsetans.

Oksana Markarova, sendiherra Úkraínu, ásamt forsetafrúnni Jill Biden.
Oksana Markarova, sendiherra Úkraínu, ásamt forsetafrúnni Jill Biden. AFP
Markarova þakkaði forsetanum.
Markarova þakkaði forsetanum. AFP

„Stöndum með úkraínsku þjóðinni“

„Staðfesta Úkraínumanna gefur heimsbyggðinni bókstaflega innblástur,“ sagði Biden og bætti við að ljósið myndi vinna á myrkrinu.

Þá ávarpaði hann sendiherrann beint og bað þá sem gætu staðið upp í salnum að gera það og klappa til að senda skýr skilaboð til Úkraínumanna um samstöðu.

„Við Bandaríki Norður-Ameríku stöndum með úkraínsku þjóðinni.“

Viðstaddir stóðu upp, sneru sér að sendiherranum og klöppuðu vel og lengi.

Reiðubúin og sameinuð

Forsetinn vék máli sínu aftur að sjálfri innrásinni og sagði hana hafa verið gerða að yfirlögðu ráði og algjörlega án nokkurs tilefnis.

„Hann hafnaði endurteknum tilraunum til viðræðna. Hann hélt að Vesturlönd og NATO myndu ekki svara. Og hann hélt að hann gæti tvístrað okkur heima fyrir,“ sagði Biden.

„Pútín hafði rangt fyrir sér. Við erum reiðubúin og við erum sameinuð.“

Þá kvaðst hann hafa unnið í mánuði að því að reisa bandalag með öðrum frelsiselskandi þjóðum, frá Evrópu og Ameríku til Asíu og Afríku, til að standa andspænis Pútín.

„Ég varði óteljandi mörgum klukkustundum í að sameina bandamenn okkar í Evrópu. Við deildum með heiminum fyrirfram því sem við vissum að Pútín væri að leggja á ráðin um, og nákvæmlega hvernig hann ætlaði að falsa réttlætingu fyrir árás sinni,“ sagði Biden.

Víða í salnum mátti sjá viðstadda með úkraínska fána eða …
Víða í salnum mátti sjá viðstadda með úkraínska fána eða klædda úkraínsku fánalitunum. AFP

Veikja her Rússlands um ókomin ár

„Við svöruðum lygum Rússlands með sannleikanum. Og nú þegar hann hefur farið af stað, þá er frjálsi heimurinn að láta hann svara fyrir það. 

Við erum að valda Rússlandi sársauka og við erum að styðja úkraínsku þjóðina. Pútín er núna einangraður frá heiminum, meira en hann hefur nokkru sinni verið,“ sagði forsetinn og uppskar mikið lófatak.

Vísaði hann þá til þvingana Vesturlanda á hendur Rússlandi, sagði að verið væri að útiloka stærstu banka Rússlands frá alþjóðlega fjármálakerfinu og hélt áfram:

„Hindrandi rússneska seðlabankann frá því að geta varið rússnesku rúbluna, sem gerir 630 milljarða dala stríðssjóð Pútíns verðlausan. Við erum að stífla aðgengi Rússlands að tækni, sem mun draga úr efnahagsstyrk þess og veikja her þess um ókomin ár.“

Elta uppi eignir olígarka

Biden tók einnig fram að Bandaríkin væru nú að elta uppi eignir rússnesku olígarkanna og leggja hald á lúxusíbúðir þeirra og einkaþotur.

Um leið benti hann á að hann hefði tekið þá ákvörðun að loka bandarísku lofthelginni fyrir rússneskum loftförum.

Fjögurra stjörnu hershöfðinginn Mark Milley, æðsti yfirmaður hersins á eftir …
Fjögurra stjörnu hershöfðinginn Mark Milley, æðsti yfirmaður hersins á eftir forsetanum og varnarmálaráðherranum, bíður hér eftir að Biden komi í salinn. AFP

Verð hlutabréfa fallið um 40%

Sú ákvörðun mun að sögn forsetans einangra Rússland enn frekar og koma auknum þrýstingi á efnahag landsins.

Rúblan hefði þannig þegar tapað 30% af verðgildi sínu, rússneski hlutabréfamarkaðurinn hefði tapað 40% af sínu virði og viðskipti með bréfin væru enn bönnuð á markaðinum.

Hann tók sérstaklega fram að herlið Bandaríkjanna myndi ekki taka þátt í að verjast innrásinni. Herlið sem sent væri til Evrópu færi þangað til að verja ríki Atlantshafsbandalagsins.

„Eins og ég hef gert kristaltært áður þá munu Bandaríkin og bandamenn okkar verja hverja tommu af yfirráðasvæði NATO-ríki með fullu okkar sameiginlega afli.“

Forsetinn sagði innrás einræðisherrans Pútíns hafa kostnað fyrir heiminn.
Forsetinn sagði innrás einræðisherrans Pútíns hafa kostnað fyrir heiminn. AFP

Erfiður tími fram undan

Forsetinn benti á að næstu dagar, vikur og mánuðir myndu vera Úkraínumönnum erfiður tími.

„Pútín hefur leyst úr læðingi ofbeldi og ringulreið. En þó hann megi ná fram sigrum á vígvellinum, þá mun hann halda áfram að gjalda það dýru verði til lengri tíma litið.

En rússneskur einræðisherra, sem ræðst inn í annað land, það hefur kostnað í för með sér fyrir heiminn.“

Vildi Biden leggja áherslu á að hann myndi gera allt í sínu valdi til að koma í veg fyrir að þvinganirnar bitnuðu á bandarískum neytendum.

Þannig hefðu sextíu milljónir tunna af olíu til að mynda verið teknar úr neyðarbirgðum í sameiningu með öðrum stærstu ríkjunum í orkunotkun, til að halda verðhækkunum í skefjum.

„Verður allt í lagi með okkur“

„Við munum gera meira ef við þurfum, sameinuð með bandamönnum okkar. Þessi skref munu hjálpa til við að mýkja eldsneytisverð hérna heima,“ bætti hann við og sagði þá skilið við olíumál.

„Ég veit að fréttirnar af því sem er að gerast geta vakið ótta. En ég vil að þið vitið að það verður allt í lagi með okkur. Þegar sagan af þessu tímabili er skrifuð þá mun stríð Pútíns gegn Úkraínu hafa skilið Rússland eftir veikara og aðra hluta heimsins sterkari.“

Forsetinn gekk um þingsalinn eftir ávarpið.
Forsetinn gekk um þingsalinn eftir ávarpið. AFP

Á sama tíma og Biden flutti ávarp sitt lentu rússneskir fallhlífahermenn í úkraínsku borginni Karkív og hófust átök við heimamenn um leið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert