Fjöldi úkraínskra flóttamanna náð einni milljón

Fjöldi flóttamanna sem hefur komist yfir landamæri Úkraínu hefur náði …
Fjöldi flóttamanna sem hefur komist yfir landamæri Úkraínu hefur náði einni milljón. AFP

Fjöldi Úkraínumanna sem hefur neyðst til að flýja heimili sitt til nágrannalanda vegna innrásar Rússa sem hófst í síðustu viku hefur nú náð milljón, samkvæmt tölum Sameinuðu þjóðanna. Þykir líklegt að milljónir til viðbótar munu bætast við þann hóp ef það fer ekki að sjá fyrir endann á stríðsátökunum.

„Á einungis sjö dögum höfum við orðið vitni af fólksflótta einna milljón flóttamanna frá Úkraínu til nágrannalanda,“ sagði Filippo Grandi, fram­kvæmda­stjóri Flótta­manna­stofn­un­ar Sam­einuðu þjóðanna í tísti.

„Ef stríðsátökunum lýkur ekki tafarlaust er líklegt að milljónir til viðbótar muni neyðast til að flýja Úkraínu,“ bætti hann við.

Aldrei séð jafn hraðan fólksflótta

Samkvæmt uppfærðum tölum Flótta­manna­stofn­un­ar Sam­einuðu þjóðanna (UN­HCR) hafa allas 1.002.860 flúið yfir landamæri Úkraínu frá því að Vladimír Pútín Rússlandsforseti hóf allsherjar innrás í Úkraínu þann 24. febrúar, eða fyrir viku. 

Grandi sagði fjölda þeirra sem þurfa að flýja hækka gríðarlega hratt en á þeim 40 árum sem hann hefur starfað við að aðstoða flóttafólk, hefur hann aldrei séð fólksflótta sem er jafn hraður á borð við þennan.

„Á hverri klukkustund, hverri mínútu, er fleira fólk að flýja hræðilegan veruleika ofbeldis,“ sagði hann.

Ríflega helmingur fer til Póllands

Ríflega helmingur þeirra sem hafa flúið Úkraínu frá því að innrásin hófst hafa farið til nágrannaríkisins Póllands, eða um 505.500 manns á einni viku. Landamæraeftirlit Póllands segir töluna enn hærri, eða um 575.000.

Ungverjaland, Moldavía og Slóvakía hafa einnig tekið á móti mörgum flóttamönnum. Þá er fjöldinn allur af flóttafólki á vergangi innan Úkraínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert