Útlitið ekki bjart eftir flugslysið

Björgunarmenn á leið á vettvang flugslyssins í dag.
Björgunarmenn á leið á vettvang flugslyssins í dag. AFP

Engar upplýsingar hafa fengist um afdrif farþega eftir hrap flugvélar China Eastern í Kína í gær, en útlitið er ekki bjart.

Í dag var haft eftir rannsakendum flugslyssins í Kína að þeir vissu ekki enn hvað hefði valdið hrapi Boeing-flugvélar China Eastern flugfélagsins, en verið er að leita í skógi vöxnum fjallshlíðum að svarta kassanum svokallaða sem skrásetur upplýsingar um flugið.

Leita að svarta kassanum

Rúmlega degi eftir slysið hafa engir farþegar fundist, en 132 manns voru í vélinni og samkvæmt kínverskum yfirvöldum voru þeir allir frá Kína. Búist er við að slysið geti verið mannskæðasta flugslys síðustu þriggja áratuga í Kína.

„Með þær upplýsingar sem við höfum getum við ekki sagt hvað olli slysinu,“ sagði Zhu Tao, formaður flugvarnarnefndar. „Áherslan núna er að finna svarta kassann.“

Björgunarmenn við störf í gærkvöldi.
Björgunarmenn við störf í gærkvöldi. AFP

Ólíklegt að einhver hafi lifað af

Spurningar hafa vaknað um orsök slyssins, því hratt og bratt fall flugvélarinnar úr lofti á aðeins einni mínútu þykir sérkennilegt. Yfirvöld í Kína hafa sagt að vitað sé um mannfall, en hafa ekki viljað lýsa yfir að allir hafi látist.

Forseti Kína, Xi Jinping, kallaði strax eftir fullri rannsókn og rannsakendur hafa notað dróna til að reyna að finna farþega úr flaki flugvélarinnar.

Þrumuhvellur heyrðist

Björgunarsveitarmenn sögðu við blaðamann AFP-fréttaveitunnar að allt svæðið væri brunarústir einar og einn þeirra bjóst við að allir í vélinni hlytu að hafa dáið.

Bæjarbúi, sem sagðist heita Ou, og býr nálægt svæðinu tjáði AFP að hann hefði heyrt þrumuhvell og síðan hefðu fjallshlíðarnar logað.

Þegar blaðamenn AFP ætluðu að skoða svæðið betur, voru þeir stöðvaðir af hópi manna sem sögðust vera í Kommúnistaflokknum og þeir hefðu fengið skipanir „að ofan“ um að hamla aðgengi að svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert