Breytingar gætu orðið strax í helmingi ríkjanna

Niðurstaðan í Roe gegn Wade á að standa óhögguð að …
Niðurstaðan í Roe gegn Wade á að standa óhögguð að mati Joe Bidens og ríkisstjórnar hans. AFP

Fari svo að Hæstiréttur Bandaríkjanna dragi úr rétti kvenna til þungunarrofss þá má velta fyrir sér hvaða áhrif það kann að hafa. 

Samkvæmt gögnum sem birtust á vef Politico virðist sem meirihluti dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna sé ósammála dómi í málinu Roe gegn Wade frá árinu 1973 þar sem Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að þungunarrof stæðist stjórnarskrá Bandaríkjanna. Sú niðurstaða er mjög þekkt og hefur reynst lagalegur grundvöllur fyrir því að leyfa þungunarrof hjá ríkjum innan Bandaríkjanna. 

Fari svo að Hæstiréttur Bandaríkjanna ógildi dóminn þá gæti útkoman orðið sú að þungunarrof verði ólöglegt í mörgum ríkjum Bandaríkjanna. Rétt­ur til þung­un­ar­rofs ekki leng­ur var­inn í stjórn­ar­skrá Banda­ríkj­anna, held­ur yrði mála­flokk­ur­inn í hönd­um ein­stakra ríkja.

„Við vitum ekki hvort þessi drög séu frá Hæstarétti kominn eða hvort þau gefi mynd af þeim viðhorfum sem ríkja meðal dómaranna,“ sagði Joe Biden Bandaríkjaforseti í dag. Hann ítrekaði að stjórnvöld í Hvíta húsinu séu sammála niðurstöðunni í Roe gegn Wade. Hún sé í takti við fjórtánda ákvæðið í stjórnarskránni varðandi frelsi einstaklingsins án ríkisafskipta í persónulegum málum. 

Talið er að liðlega helmingur ríkjanna sem mynda Bandaríkin muni banna þungunarrof verði þetta niðurstaðan. Búist er við að Hæstiréttur taki afstöðu í júlí. Í suðurríkjum eins og Georgíu, Suður-Karólínu, Tennessee er búist við að þungunarrof verði þá bannað eða þrengt verulega að þessum rétti en einnig í Texas og fleiri ríkjum. Ekki er búist við því að ákvörðun Hæstaréttar myndi hafa nein áhrif í ríkjum eins og Kaliforníu. 

Samkvæmt gögnum sem tekin hafa verið saman í Bandaríkjunum myndi bann við þungunarrofi hafa mest áhrif á ungar konur, konur sem eru undir fátæktarmörkum og svartar konur. Þessir hópar eru líklegastir til að nýta þungunarrof samkvæmt tölunum. Meirihluti þeirra sem fara í þungunarrof í Bandaríkjunum eru á þrítugsaldri. 

mbl.is