Keppnisbann vegna stuðnings við Pútín

Sergey Karjakin (t.h.) fær ekki að skora á heimsmeistarann.
Sergey Karjakin (t.h.) fær ekki að skora á heimsmeistarann. AFP

Rússneski stórmeistarinn Sergey Karjakin, sem hefur ósjaldan barist um heimsmeistaratitilinn í skák, hefur verið settur í sex mánaða keppnisbann og á því ekki möguleika á að geta skorað á heimsmeistarann, Magnus Carlsen. 

Er þetta vegna yfirlýsinga sem Karjakin hefur haft uppi um Úkraínustríðið – Karjakin er hliðhollur innrás Rússa í Úkraínu og voru yfirlýsingar hans þess efnis kærðar til siðanefndar Alþjóðaskáksambandsins FIDE, sem úrskurðaði Karjakin í sex mánaða leikbann.

Rússnesk forysta í FIDE breytir litlu

Áfrýjaði Karjakin niðurstöðunni til áfrýjunarnefndar FIDE sem komst að því í dag að ekki yrði veitt áfrýjunarleyfi í málinu. Athygli vekur að Rússar hafa átt taglir og höld í FIDE enda forseti sambandsins fyrrum varaforsætisráðherra Rússlands, Arkady Dvorkovich, en það skiptir litlu í máli Karjakins enda óháð siðanefnd sem tók málið til umfjöllunar.

Telst Karjakin brotlegur við grein 2.2.10 í siðareglum FIDE, sem kveður á um að mál verði tekin umfjöllunar þegar rýrð er kastað á FIDE eða sambönd þess á óréttlætanlegan hátt. 

Karjakin átti að vera á meðal þeirra sem taka þátt í Áskorendamótinu en sigurvegari þess mun tefla heimsmeistaraeinvígi gegn Carlsen. Chess.com fjallaði ítarlega um málið í dag. Flest ummælin hefur Karjakin látið falla á Twitter-síðu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert