Herforingi á eftirlaunum skotinn niður

Úkraínsk þota af gerðinni Su-25 flýgur undan blysum sem hún …
Úkraínsk þota af gerðinni Su-25 flýgur undan blysum sem hún sleppti sjálf. Mynd úr safni. AFP

Kanamat Bótasév, fyrrverandi hershöfðingi í rússneska flughernum, var skotinn niður yfir Lúhansk-héraði í Úkraínu á sunnudag.

BBC greinir frá þessu í rússneskri útgáfu sinni og hefur eftir þremur mönnum, sem áður störfuðu undir hershöfðingjanum og héldu sambandi við hann eftir að hann lauk herþjónustu. Þeir óskuðu eftir nafnleynd til að gæta öryggis síns.

Heryfirvöld í Úkraínu tilkynntu á sunnudag að þeim hefði tekist að skjóta niður rússneska þotu af gerðinni Su-25. Tóku þau einnig fram að flugmaðurinn hefði ekki haft tök á að skjóta sér út úr vélinni.

Fór fyrr á eftirlaun

Bótasév, sem var fæddur árið 1959, var kominn á eftirlaun en hann stýrði áður herdeild innan flughersins. Þátttaka háttsetts manns á borð við hann í loftbardögum, þykir gefa til kynna að verkefni rússneskra herflugmanna í stríðinu geti verið þeim of erfið, og að hæfa flugmenn skorti.

Raunar fór Bótasév fyrr á eftirlaun en gert var ráð fyrir, árið 2012, eftir að hafa reynt listflug við stýri á Su-27 orrustuþotu sem hann hafði tekið í óleyfi. Brotlenti vélin eftir að hershöfðinginn missti stjórn á henni.

Úkraínumönnum hefur áður tekist að fella hershöfðingja í stríðinu og bætist Bótasév við óvenju fjölmennan hóp, enda lifa hershöfðingjar oftast nær af í stríðsátökum, fjarri vígvellinum.

mbl.is