Greiða ferðakostnað starfsfólks vegna þungunarrofs

Rétturinn heimilaði sneri við fordæmi dómsins Roe gegn Wade og …
Rétturinn heimilaði sneri við fordæmi dómsins Roe gegn Wade og er ríkjum Bandaríkjanna því nú heimilt að leggja á bann við fóstureyðingum. Þrettán ríki hafa nú þegar samþykkt slíkt bann. AFP

Stórfyrirtæki í Bandaríkjunum, á borð við Disney, JP Morgan, Amazon og Meta, hafa lofað starfsfólki sínu að þau muni standa straum af kostnaði við ferðalög vegna þungunarrofs, gerist þeirra þörf í ljósi nýlegs dóms Hæstaréttar þar í landi, sem fellir fordæmisgildi dómsins Roe gegn Wade og heimilar algert bann við þungunarrofi. 

Í kjölfar dómsins samþykkti ríkisstjórinn í Flórída lög sem banna þungunarrof eftir fimmtándu viku meðgöngu. Þau taka gildi þann 1. júlí. Disney hefur áttatíu þúsund manns í vinnu í Flórída. 

Þetta gildir þó ekki um öll ríki og því geta þær konur, sem búa í ríki þar sem þungunarrof verður lögbrot, ferðast til ríkis þar sem þungunarrof er löglegt og sótt þjónustuna þar.

Talsmaður Disney segir stjórnendur fyrirtækisins vilja koma því til skila að þeir átti sig á áhrifum dómsniðurstöðunnar, og vilji leggja sitt af mörkum til að tryggja áfram óhindraðan aðgang alls síns starfsfólks að heilbrigðisþjónustu á viðráðanlegu verði, þar á meðal að þungunarrofi og frjósemisaðgerðum. 

Þrettán fylki samþykkt bann nú þegar 

Fleiri fyrirtæki hafa gefið út sambærilegar yfirlýsingar til sinna starfsmanna. Þar má nefna Conde Nast, útgefanda tímaritsins Vogue, vefsíðuna Yelp, fatamerkið Levi Strauss og leigubifreiðafyrirtækin Lyft og Uber. 

Lyft hefur til viðbótar lofað að þeir muni greiða fyrir málsvörn starfsfólks í málaferlum sem lúta að þungunarrofi. „Enginn bílstjóri á að þurfa að spyrja farþega hvert hann sé að fara eða hvers vegna.“

Í frétt BBC er farið yfir þá lagalegu stöðu sem uppi er í Bandaríkjunum eftir að dómurinn féll. Þrettán ríki hafa nú þegar samþykkt svokölluð viðbragðslög, sem skyldu taka gildi ef dómurinn félli á þann veg sam hann gerði. Er hér um að ræða lög sem banna þungunarrof. 

Það eru ríkin Arkansas, Idaho, Kentucky og Louisiana, Missisippí, Missouri og Norður Dakóta, Óklahóma, Suður-Dakota, Tennessee, Texas, Utah og Wyoming.  

Þá eru tuttugu ríki í viðbót að taka skref í átt að því að takmarka aðgang kvenna að þungunarrofi, án þess að leggja algert bann við því. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert