Kjörinn forseti Kenía eftir mikla dramatík

William Ruto, nýkjörinn forseti Kenía, í dag.
William Ruto, nýkjörinn forseti Kenía, í dag. AFP/Tony Karumba

William Ruto var í dag kjörinn forseti Kenía. Hann vann nauman sigur á keppinaut sínum, Raila Odinga, og hlaut 50,5% atkvæða samkvæmt opinberum niðurstöðum.

Tilkynningunni var seinkað vegna átaka og ásakana um kosningasvik frá stuðningsmönnum Odinga. Skömmu áður en úrslitin voru tilkynnt neituðu fjórir af sjö meðlimum kjörstjórnar að samþykkja niðurstöðuna og sögðu hana „ógagnsæa“.

BBC greinir frá þessu.

„Við ætlum að gefa út yfirlýsingu og enn og aftur hvetjum við Keníumenn til að halda ró sinni. Það eru opnar dyr að dómstólum og lögin munu sigra,“ sagði Juliana Cherera, varaformaður kjörstjórnar.

Var þetta í fyrsta sinni sem Ruto bauð sig fram til forseta, en hann hefur gegnt stöðu varaforseta í tíu ár. Ágreiningur hefur ríkt á milli hans og Uhuru Kenyatta, fráfarandi forseta, sem studdi Odinga til að taka við af sér. Odinga var að bjóða sig fram til forseta í fimmta sinn.

Formanni kjörstjórnar hótað

Formaður kjörstjórnar, Wafula Chebukati, sagðist hafa gegnt skyldu sinni þrátt fyrir að hafa fengið hótanir, um leið og hann tilkynnti úrslitin. Sagðist hann hafa tryggt að Keníubúar fengju sanngjarnar og trúverðugar kosningar.

Í ræðu sinni þakkaði Ruto kjörstjórninni fyrir að hafa umsjón með kosningunum. Hann sagðist vilja vera „forseti allra“ og að landið einbeitti sér að framtíðinni.

„Við þá sem hafa gert margt gegn okkur vil ég segja að það er ekkert að óttast. Það verður engin hefnd,“ bætti hann við.

Hátíðarhöld hafa brotist út í nokkrum hlutum landsins, en stuðningsmenn Odinga hafa hins vegar efnt til mótmæla í vesturhluta landsins og á nokkrum svæðum í Naíróbí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert