Búast við að Odinga muni kæra niðurstöðuna

Raila Odinga tapaði í forsetakosningunum í Kenía í gær.
Raila Odinga tapaði í forsetakosningunum í Kenía í gær. AFP

Keníumenn bíða nú eftir að heyra frá Raila Odinga og gera margir ráð fyrir því að hann muni kæra niðurstöðu kosningabaráttunnar, en keppinautur hans, William Ruto, var kjörinn forseti landsins í gær eftir að hafa hlotið 50,5% atkvæða.

Andstæðingar Ruto voru afar ósáttir með niðurstöðuna auk þess sem hún olli klofningi í kjörstjórn landsins.

Odinga, forsetaframbjóðandi stjórnarandstöðunnar, tapaði í kosningunum en hann var að bjóða sig fram til forseta í fimmta sinn og naut meðal annars stuðnings Uhuru Kenyatta, fráfarandi forseta landsins.

Mikil óregla í baráttunni

Odinga hefur ekki tjáð sig opinberlega síðan á kjördag, en fulltrúi hans sagði í gær að kosningabaráttan hafi einkennst af mikilli óreglu.

Búist er við að Odinga muni ávarpa þjóðina síðar í dag. Hann hefur haldið því fram að kosningasvik hafi einnig átt sér stað í forsetakosningunum 2007, 2013 og 2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert