Fiskuðu þjóf upp úr Signu í París

Bátur siglir eftir Signu í París. Myndin tengist frétt ekki …
Bátur siglir eftir Signu í París. Myndin tengist frétt ekki beint. AFP/Thomas Coex

Lögreglan í París í Frakklandi fiskaði í dag mann upp úr ánni Signu. Maðurinn hafði keyrt bíl inn í Valentino-verslun og stolið 30 dýrum handtöskum, en ákvað svo að yfirgefa bílinn og stökkva í ána á flótta undan lögreglunni.

Þjófurinn, sem er 24 ára gamall, keyrði inn í verslunina við Rue Saint-Honoré götuna klukkan tvö í nótt og hafði á brott með sér hátt upp í 30 dýrar handtöskur.

Á vefsíðu Valentino eru töskurnar sem fundust í bílnum merktar á verðbilinu 1.000 - 3.000 evrur.

Fljót að handtaka þjófinn

Lögreglan kom auga á þjófinn nálægt óperuhúsinu í París, en hann yfirgaf bifreiðina við enda Champs-Elysees breiðgötunnar áður en hann steypti sér í Signu skammt frá.

Lögreglan var fljót að fiska þjófinn upp úr ánni og handtaka hann. Heimildarmaður á staðnum segir að sé búið að skila öllum þeim munum sem stolið var. Þjófurinn á nú yfir höfði sér ákærur fyrir rán og neitun við að verða við tilskipunum lögreglu, en þetta segir saksóknari í París.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert