Undraskjót leiftursókn

Úkraínskur hermaður stendur á skriðdreka í Karkív-héraði.
Úkraínskur hermaður stendur á skriðdreka í Karkív-héraði. AFP/Juan Barreto

Úkraínuher hefur nú frelsað bæði Kúpíansk og Isíum undan yfirráðum Rússa, en borgirnar tvær eru mikilvægir hlekkur í birgðakeðju Rússa í norðausturhluta landsins. Þá benda óstaðfestar fregnir til þess að þeir hafi hörfað frá borginni Líman í Donetsk-héraði.

Kúpíansk féll á fyrstu vikum stríðsins, en mikilvægir vegir liggja í gegnum borgina. Þá nýttu Rússar sér Isíum til þess að herða á sókn sinni í Lúhansk-héraði í sumar. Nái Úkraínumenn að halda borgunum hafa þeir skert verulega getu Rússa til að halda uppi vörnum í austurhluta landsins.

Leiftursókn Úkraínumanna, sem hófst á miðvikudaginn, hefur nú náð að þrýsta Rússum aftur um rúmlega 50 kílómetra eða meira þar sem sóknir þeirra ná sem lengst. Hafa jafnvel borist óstaðfestar fregnir um að Úkraínumenn séu komnir að Svatovo í Lúhansk-héraði, sem er um 50 kílómetrum frá Kúpíansk, og um 100 kílómetrum frá þeim stað sem víglínan var á í upphafi síðustu viku.

Oleksí Arestovitsj, hernaðarráðgjafi Volodimírs Selenskí Úkraínuforseta, sagði fyrr í dag að Úkraínumenn ættu nú í vanda með að finna stað fyrir alla stríðsfangana sem þeir hefðu tekið til fanga. Yfirlýsing hans bendir til þess, sem óstaðfestar rússneskar heimildir hafa einnig haldið fram, að almennur flótti hafi brostið á víða þar sem Úkraínumenn sóttu fram.

Á sama tíma og Úkraínuher sækir hratt fram í austri, hefur gagnsókn hans í suðri miðað áfram hægt og bítandi. Aðstæður þar eru hins vegar erfiðari fyrir sóknir, þar sem mikið er um opin landsvæði sem veita fótgönguliði lítið skjól.

mbl.is