Bjóða fjórar milljónir á viku

Hér, á eyjunni Skjervøy, eru 300.000 norskar krónur í boði …
Hér, á eyjunni Skjervøy, eru 300.000 norskar krónur í boði á viku fyrir heimilislækni sem er tilbúinn að sinna 3.000 manna byggðarlagi til áramóta. Upphæðin er boðin starfsmannaleigu svo hún skilar sér ekki í heild sinni til þess læknis sem verður fyrir valinu, takist yfir höfuð að fá þangað lækni. Ljósmynd/Visit Lyngenfjord

Stjórnendur sveitarfélagsins Skjervøy í Troms og Finnmark-fylki í Noregi hafa boðið starfsmannaleigu 300.000 norskar krónur á viku, andvirði 4,1 milljónar íslenskra króna, út árið fyrir að útvega þessu 3.000 íbúa samfélagi einn heimilislækni.

Í fyrradag fjallaði mbl.is um svimandi launagreiðslur nýútskrifaðra danskra lækna sem norsk sveitarfélög leigja dýrum dómum gegnum starfsmannaleigur vegna læknaskorts í Noregi en afleysingalæknar þessir ganga til starfa sinna fyrir rúmlega tvöföld þau laun sem norskum læknum bjóðast.

Norska ríkisútvarpið hefur undir höndum minnisblað þar sem fram kemur að læknakostnaðurinn nú sé hjóm eitt miðað við það sem reikna megi með næsta sumar, þá muni hann að líkindum allt að því tvöfaldast miðað við gangverðið nú sem mörgum þykir þó nóg um.

„Þetta er þungt högg fyrir fjárhag sveitarfélagsins og ekki sjálfbær lausn. Þetta er neyðarlausn,“ segir Åshild Hansen, heilbrigðismálafulltrúiSkjervøy, og bætir því við að hluti samstarfsfólks hennar telji verðið út í hött.

Milljónir, ferðakostnaður og íbúð

Hilmar Høl, bæjarstjóri í Årdal í Vestland-fylki, segir læknakostnaðinn stærsta vandann sem hans sveitarfélag glími við. Greinir hann norska ríkisútvarpinu NRK frá því að fyrir skemmstu hafi Årdal átt í viðræðum við afleysingalækni sem var reiðubúinn að koma þangað til starfa gegn 120.000 króna greiðslu á viku, jafnvirði 1,6 milljóna íslenskra króna, auk ferðakostnaðar og íbúðar fullbúinnar húsgögnum. Af þeim samningum varð ekki en eftir stendur að þrjár af sex heimilislæknastöðum sveitarfélagsins eru ómannaðar.

Svipaðar sögur berast frá fjölda norskra sveitarfélaga á landsbyggðinni nú þegar nær 200.000 Norðmenn eru án heimilislæknis. Ríkisstjórnin hefur þó boðað úrbætur og kveðst taka málið „föstum tökum“ í fjárhagsáætlun ársins 2023 auk þess sem hún hefur skipað starfshóp sem ætlað er að fara ofan í saumana á norska heimilislæknafyrirkomulaginu sem víða hefur verið gagnrýnt.

Markmiðið sé að „allir hafi aðgang að heimilislækni gegnum fyrirkomulag sem til langs tíma sé sjálfbært“. Er gert ráð fyrir að starfshópurinn skili fyrstu tillögum fyrir 1. desember.

NRK

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert