Þakkaði Kínverjum fyrir stuðninginn

Vladimir Pútín ræðir við Xi Jinpping á ráðstefnunni.
Vladimir Pútín ræðir við Xi Jinpping á ráðstefnunni. AFP/Sergei Bobylyov

Vladimír Pútín Rússlandsforseti, og Xi Jinping, forseti Kína, hittust í fyrsta sinn augliti til auglitis í gær síðan Rússar réðust inn í Úkraínu.

„Kína er tilbúið til að leggja sitt af mörkum ásamt Rússum sem stórveldi og veita leiðsögn til að koma á stöðugleika og jákvæðri orku í heimi þar sem samfélagsleg ringulreið hefur ríkt,“ sagði Xi við Pútín í viðræðum á ráðstefnu í Úsbekistan í gær.

Kínverski ríkisfjölmiðillinn CCTV hafði einnig eftir Xi að Kínverjar væru tilbúnir til að starfa með Rússum þannig að „hagsmunir beggja“ verði verndaðir.

Pútín á ráðstefnunni.
Pútín á ráðstefnunni. AFP

Óásættanlegar tilraunir

Pútín gagnrýndi Bandaríkjamenn, sem hafa verið leiðandi þegar kemur að stuðningi við Úkraínu og við að innleiða refsiaðgerðir gegn Rússum.

„Tilraunir til að búa til einpóla heim hafa nýlega tekið á sig ljóta mynd og eru algjörlega óásættanlegar,“ sagði Pútín.

„Við kunnum vel að meta afstöðu kínverskra vina okkar í tengslum við Úkraínu-krísuna sem felur í sér jafnvægi,“ sagði Pútín við Xi í viðræðunum.

Einnig minntist Pútín á stuðning Rússa við Kínverja vegna málefna Taívans.

„Við fylgjum hugmyndinni um eina kínverska þjóð. Við fordæmum ögranir Bandaríkjamanna og fylgihnattar þeirra á Taívansundi,“ sagði Pútín, eftir að bandarísk þingnefnd tók á miðvikudag fyrstu skref fyrir bandarísk stjórnvöld um að veita milljónum dollara í hernaðaraðstoð til Taívans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert