Hákon krónprins til Íslands

Hákon Magnús krónprins er væntanlegur til landsins rétt fyrir miðjan …
Hákon Magnús krónprins er væntanlegur til landsins rétt fyrir miðjan október til ráðstefnusetu og heimsókna. Ljósmynd/Norska konungshöllin

Norski krónprinsinn Hákon Magnús leggur leið sína til Íslands 12. október til tveggja daga dvalar. Sækir prinsinn hina árlegu Arctic Circle-ráðstefnu sem í ár er haldin í Reykjavík en dagskrá heimsóknarinnar snýr einnig að grænum lausnum í orkumálum auk þess sem hann mun heimsækja vettvang síðasta eldgoss í föruneyti Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands.

Frá þessu er greint í fréttatilkynningu norska utanríkisráðuneytisins auk þess sem ráðuneytið tekur fram að heimsóknin sé liður í hinu góða og nána grannasambandi Íslands og Noregs.

Tengsl viðskiptalífsins styrkt

Auk þess að kynna prinsinum náttúrulegan frumkraft eldgosa, sem ekki er mikið framboð af í Noregi, er markmið heimsóknarinnar öðrum þræði að styrkja tengsl atvinnu- og viðskiptalífs frændþjóðanna og mun Hákon í því augnamiði heimsækja starfsstöðvar Carbfix á Hellisheiði sem ráðuneytið tekur fram í kynningu sinni að sé brautryðjandi á sviði kolefnisbindingar og minnkaðrar losunar gróðurhúsalofttegunda.

Þá mun Hákon eiga sitthvað saman að sælda við æsku landsins og umhverfistengd samtök en fararstjóri hans í heimsókninni verður Eivind Vad Petersson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins.

mbl.is