Rússar gripnir eftir flótta til Alaska

Löngu yfirgefin Northeast Cape-herflugstöð bandaríska flughersins á St. Lawrence-eyju.
Löngu yfirgefin Northeast Cape-herflugstöð bandaríska flughersins á St. Lawrence-eyju. Ljósmynd/U.S. Army Corps of Engineers

Tveir rússneskir karlmenn eru í haldi lögreglu í Alaska, þar sem þeir hafa jafnframt sótt um hæli sem flóttamenn, eftir að hafa lagt á sig tæplega 500 kílómetra siglingu á bátskrifli frá Egvekinot í Norðaustur-Rússlandi til St Lawrence-eyjar við Alaskastrendur þar sem þeir gerðu strandhögg í Gambell, um 500 íbúa þorpi.

Frá þessu greindu bandarískir embættismenn í gær en heimildarmaður ráðuneytis heimavarna, Department of Homeland Security, sagði hælisumsóknir mannanna vera í vinnslu.

St Lawrence-eyja er raunar þannig staðsett að hún er nær Rússlandi en Bandaríkjunum, frá henni eru aðeins 56 kílómetrar að Tsjúktsjí-skaganum rússneska og sjá íbúar Gambell til lands í Síberíu á góðum degi.

Lega St. Lawrence miðja vegu milli Alaska og Rússlands, þó …
Lega St. Lawrence miðja vegu milli Alaska og Rússlands, þó ívið nær Rússlandi. Kort/Freeworldmaps

Reikna ekki með straumi fólks

Munu Rússarnir hafa komið til þorpsins á þriðjudaginn og var flogið þaðan með þá til borgarinnar Anchorage til skýrslutöku og skráningar. Ríkisstjóri Alaska, Mike Dunleavy, sagði á miðvikudaginn að koma gestanna væri „mjög óvænt“.

„Við reiknum ekki með neinum straumi fólks hingað [frá Rússlandi]. Ekkert bendir til þess að nokkuð slíkt sé í vændum, þetta gæti því mjög vel verið einangrað atvik,“ sagði ríkisstjórinn enn fremur en Dan Sullivan, annar öldungadeildarþingmanna Alaska, hvatti yfirvöld hins vegar til að gera einhvers konar áætlun gerðu fleiri Rússar tilraun til að komast þessa leið til Bandaríkjanna.

„Þetta atvik sýnir okkur tvennt: Í fyrsta lagi vill rússneskur almenningur ekki berjast í árásarstríði Pútíns í Úkraínu og í öðru lagi gegnir Alaska þungavigtarhlutverki í öryggismálum Bandaríkjanna vegna nálægðarinnar við Rússland,“ sagði Sullivan í skriflegri yfirlýsingu í gær.

Allt að 700.000 karlmenn yfirgefið Rússland

Hinn öldungadeildarþingmaður Alaska-ríkis, Lisa Murkowski, sagði hins vegar að atvikið undirstrikaði þörfina fyrir herta öryggisgæslu í nyrstu véum Bandaríkjanna.

Eftir því sem tímaritið Forbes greindi frá í vikunni, og bar heimildarmann í Kreml fyrir, áætla rússnesk stjórnvöld að allt að 700.000 karlmenn hafi yfirgefið Rússland frá því Pútín kynnti herkvaðningu sína í september. Bætist sá flótti við umfangsmikið mannfall úr röðum Rússa á vígvöllum Úkraínu. Vitað er að fjöldi hefur flúið til Kasakstan, Georgíu og Finnlands, auk þess sem Rússar eru orðnir fjölmennir í Kirkenes og fleiri bæjum í Norður-Noregi.

Tvemenningarnir sem dúkkuðu upp á eyju við Alaska eru hins vegar þeir fyrstu sem til þess svæðis koma svo vitað sé.

Anchorage Daily News
ABC17 News
News Channel 10

mbl.is