„Við munum draga fólk til ábyrgðar“

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna hófst í Egyptalandi í dag.
Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna hófst í Egyptalandi í dag. AFP

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna, COP27, hófst í Egyptalandi í dag þar sem meðal annars var samþykkt að ræða um stofnun bótasjóðs fyrir þær þjóðir sem verða fyrir verstu afleiðingum hlýnunar jarðar.

Á undanförnum mánuðum hafa þúsundir látist vegna veðurhamfara. Minnst var á gífurleg flóð sem lögðu Pakistan og Nígeríu í rúst, þurrka sem versnuðu í Afríku og vesturhluta Bandaríkjanna, fellibyli sem riðu yfr Karíbahafið og ófyrirséðar hitabylgjur sem gengu yfir þrjár heimsálfur.

„Við munum draga fólk til ábyrgðar, hvort sem það eru forsetar, forsætisráðherrar eða forstjórar,“ sagði Simon Stiell, yfirmaður loftslagsmála hjá Sameinuðu þjóðunum, þegar ráðstefnan hófst.

Síðustu átta ár þau hlýjustu

Fram kom að núverandi þróun muni leiða til þess að kolefnismengun aukist um 10 prósent í lok áratugarins og yfirborð jarðar hitni um 2,8 gráður.

Í viðvörun frá Alþjóðaveðurfræðistofnun Sameinuðu þjóðanna kemur fram að síðustu átta ár hafi verið þau átta hlýjustu sem mælst hafa, með hækkandi sjávarborði, bráðnun jökla og hitabylgjum.

Sameh Shoukry, utanríkisráðherra Egyptalands og stjórnandi ráðstefnunnar, benti á að ríkar þjóðir hefðu ekki staðið við sérstakt loforð um að afhenda 100 milljarða dollara á ári til að hjálpa þróunarlöndum að koma í veg fyrir slæmar afleiðingar loftslagsbreytinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert