Gríðarlega mikilvægt skref

Tinna Hallgrímsdóttir, forseti Ungra umhverfissinna, á COP27-ráðstefnunni.
Tinna Hallgrímsdóttir, forseti Ungra umhverfissinna, á COP27-ráðstefnunni. Ljósmynd/Aðsend

Loftslagsráðstefnunni COP27 er nú lokið, en tekist hefur að ljúka við allar ákvarðanir er varða aðildarríkjaþing loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í Egyptalandi.

Tinna Hallgrímsdóttir, forseti Ungra umhverfissinna, segir það hafa verið sögulega stund þegar stofnun loftslagshamfarasjóðs var samþykkt og segir það gríðarlega mikilvægt skref í að tryggja loftslagsréttlæti og aðstoð til landa í viðkvæmri stöðu vegna afleiðinga loftslagsbreytinga.

„Hins vegar tókst ekki að ná inn nægilega sterku orðalagi er varðar orsakavaldinn á þessum loftslagshamförum, þ.e.a.s. jarðefnaeldsneyti. Ekki náðist samstaða um að ná inn orðalagi um að fasa út allt jarðefnaeldsneyti, textinn helst óbreyttur frá því í fyrra um að draga úr kolanotkun,“ segir Tinna.

Það hafi þó náðst að halda ágætlega sterku orðalagi í samningnum um að takmarka hnattræna hlýnun við 1,5 gráðu.

Óásættanlegt bil

„Hins vegar er ljóst að ríki þurfa að gera mun betur hvað varðar markmið þeirra um samdrátt í losun, þar sem bilið milli þeirra markmiða sem við höfum og 1,5 gráðu er óásættanlegt eins og er,“ segir Tinna.

Í lokasamþykkt fundarins er endurtekið ákall frá COP26 í fyrra um að ríki uppfæri markmið sín fyrir næsta aðildarríkjaþing, það er COP28.

„Gríðarmikið átak fór í að viðhalda þeim metnaði sem var settur fram í lokasamþykkt aðildarríkjaþingsins í Glasgow í fyrra. Það tókst rétt svo að ítreka þann árangur sem náðist í að halda fókusnum á 1,5 gráðu, en ekki að taka nauðsynleg skref lengra.

Í lokasamþykktina vantar ákall um að fasa út allt jarðefnaeldsneyti, ákall um að hnattræn hlýnun nái hámarki í seinasta lagi 2025 og sterkt orðalag um endurnýjanlega orku, en það útvatnaðist í „endurnýjanlega og láglosunar orku“ á seinustu mínútunum“.

Tinna Hallgrímsdóttir segir stofnun loftslagshamfarasjóðs gríðarlega mikilvægt skref í að …
Tinna Hallgrímsdóttir segir stofnun loftslagshamfarasjóðs gríðarlega mikilvægt skref í að tryggja loftslagsréttlæti. AFP/Joseph Eid

Margt þurfi að ræða betur á COP28

Tinna segir að ræða þurfi mörg mál betur á COP28. Það eigi til dæmis eftir að fjármagna loftslagshamfarasjóðinn og útfæra marga lausa enda, líkt og hvaða ríki eigi rétt á fjármagni úr honum.

Áherslan sé nú lögð á ríki sem eru „sérstaklega viðkvæm“, en óljóst sé hvaða ríki falli nákvæmlega þar undir.

Þá hafi ekki verið tekin ákvörðun er varðar nýtt markmið um loftslagsfjármagn, svo að sú vinna heldur áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert