Úkraína fagnar endurheimt Kerson

Kerson-búar fagna endurheimt borgar sinnar í Odessa.
Kerson-búar fagna endurheimt borgar sinnar í Odessa. AFP

Úkraínumenn fögnuðu brotthvarfi Rússahers úr borginni Kerson í dag. Úkraínsk yfirvöld eru nú í óða önn að sprengjuhreinsa borgina, skrásetja glæpi Rússa og koma dreifikerfi raforku í lag.

Kerson var ein þeirra fjögurra borga sem Vladimir Pútín, Rússlandsforseti, sagðist vera búin að innlima í rússneska ríkið í september. Brotthvarf hersveita Rússa þykir því merki um öfluga viðspyrnu Úkraínu gegn innrásinni.

Allt á réttri leið

Í hinu nýfrjálsa þorpi Pravdyne, rétt fyrir utan Kerson, fögnuðu bæjarbúar brotthvarfi hersveitanna dátt og svo mjög að sumir felldu tár.

„Guði sé lof, við erum frjáls og núna mun allt fara aftur í réttan farveg,“ sagði bæjarbúi við fréttamann AFP í dag.

Dansað við varðeld

Þá birti úkraínski herinn myndir af Úkraínumönnum dansandi í kringum varðeld, syngjandi þjóðlög.

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu sagði alla þjóðina vera sigurglaða í færslu á Twitter eftir að hafa lýst því yfir að borgin væri laus úr fjötrum Rússa.

„Áður en Rússar flúðu frá Kerson eyðilögðu þeir alla mikilvæga innviði... fjarskiptabúnað, vatnsveitu, hitaveitu, rafmagn,“ er haft eftir Selenskí í frétt AFP.

Volodomyr Selenskí, forseti Úkraínu.
Volodomyr Selenskí, forseti Úkraínu. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina