Munnsjúkdómar hrjá um helming jarðarbúa

Allir vilja hafa munninn og tennurnar í lagi. Það er …
Allir vilja hafa munninn og tennurnar í lagi. Það er lítið bit í öðru. Ljósmynd/Colourbox

Skemmdar tennur, tannholdsbólga og krabbamein í munni eru dæmi um munnsjúkdóma sem tæplega helmingur jarðarbúa þarf að kljást við að sögn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). 

Í nýrri skýrslu kemur skýrt fram hversu ójafnt aðgengi fólks er að slíkri heilbrigðisþjónustu. WHO segir ástandið verst hjá þeim hópum sem eru í viðkvæmri stöðu, búa við fátækt og erfiðar aðstæður. 

„Munnheilsa hefur lengi verið vanrækt heilbrigðismál á heimsvísu,“ sagði Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri WHO. Hann bætti við að það væri hægt að koma í veg fyrir marga sjúkdóma eða meðhöndla þá með viðunandi og hagkvæmum hætti. 

Í skýrslunni segir að 45% jarðarbúa, eða um 3,5 milljarðar einstaklinga, berjist nú við ýmsa sjúkdóma í munni. 

Þetta er fyrsta heildstæða myndin sem er dregin upp af munnheilsu í 194 löndum. Þar segir að slíkum heilsufarsvandamálum hafi fjölgað um einn milljarð undanfarin 30 ár. 

Að sögn WHO þá er þetta augljós vísbendingum að fjölmargir hafi ekki aðgengi að slíkra heilbrigðisþjónustu sem sinni tann- og munnheilsu. 

Algengustu sjúkdómarnir eru tannskemmdir, eða tennur sem eru að eyðast, alvarlegar tannholdsbólgur, tannleysi og krabbamein í munni. 

Tannskemmdir sem ekki er sinnt er algengasta vandamálið sem hefur áhrif á um 2,5 milljarða jarðarbúa. 

Um einn milljarður er sagður glíma við alvarlega tannholdsbólgu sem veldur tannlosi.

Þá greinast um 380.000 ný krabbameinstilfelli í munni árlega. 

Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri WHO, greindi frá efni skýrslunnar.
Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri WHO, greindi frá efni skýrslunnar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert