Segir allt að 13 þúsund hermenn hafa fallið

Úkraínskur hermaður 30. nóvember.
Úkraínskur hermaður 30. nóvember. AFP/Yechen Titov

Allt að þrettán þúsund úkraínskir hermenn hafa verið drepnir eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu í febrúar. Háttsettur ráðgjafi forsetans Volodimírs Selenskís greindi frá þessu.

„Við höfum fengið opinberar tölur frá hernum...og þær eru á bilinu 10 þúsund....til 13 þúsund dánir,“ sagði Mykhailo Podolyak við úkraínsku stöðina Channel 24.

Hann bætti við að Selenskí muni segja almenningi frá opinberum tölum „þegar rétti tíminn kemur“, bætti hann við.

Selenskí Úkraínuforseti.
Selenskí Úkraínuforseti. AFP/Ronaldo Schemidt

Í júní, eftir að Rússar höfðu náð fullri stjórn yfir héraðinu Lúgansk, sagði Selenskí að Úkraína væri að missa „60 til 100 hermenn á dag, sem eru drepnir á vígvellinum og um 500 manns særast í bardögum“.

Rússneski varnarmálaráðherrann Sergei Shoigu sagði í september að 5.937 rússneskir hermenn hefðu fallið eftir sjö mánaða bardaga.

Í síðasta mánuði sagði bandaríski hershöfðinginn Mark Milley að meira en 100 þúsund rússneskir hermenn hafi verið drepnir eða særst í Úkraínu. Reiknaði hann með því að mannfallið væri álíka mikið hjá Úkraínumönnum. Þessar tölur hafa ekki verið staðfestar.

Þúsundir almennra borgara í Úkraínu hafa verið drepnir í stríðinu.

mbl.is